Sunnudagur 24.12.2023 - 09:24 - Rita ummæli

Jólasveinarnir

Hvers vegna eru íslensku jólasveinarnir þrettán svo gerólíkir jólasveininum alþjóðlega, góðlega, rauðklædda og hvítskeggjaða, sem fer með himinskautum og gefur þægum börnum gjafir? Íslensku jólasveinarnir eru hrekkjóttir og þjófóttir og koma ofan úr fjöllum, einn af öðrum, og móðir þeirra, Grýla, á það til að éta óþæg börn. Alþjóðlegi jólasveinninn er hins vegar ættaður frá heilögum Nikulási, sem var biskup í borginni Myra í Rómarríki, nú Demre í Tyrklandi. Hann var uppi á fjórðu öld eftir Krist og kunnur að gjafmildi og örlæti. Nafn hans afbakaðist í Sinterklaas í hollensku og Santa Claus á ensku (Papa Noel á portúgölsku).

Ég leyfi mér að setja fram þá tilgátu, sem getur ekki verið frumleg, að munurinn stafi af gerð og björgum þjóðskipulagsins. Allir þeir, sem gætt hafa ungra barna, vita, hversu erfitt er að fá þau til að hlýða boðum og bönnum, svo að þau hlaupi ekki þangað, sem hættur leynast. Þá þarf ýmist að veifa framan í þau vendinum eða gulrótinni, óttanum eða voninni. Ísland er land djúpra dala, hárra fjalla, margra mánaða myrkurs og hættulegra lækja, fljóta og vatna. Allt var opið, engar girðingar sem heitið gæti. Hætt var við, að börn færu sér að voða nálægt sveitabæjum í skammdeginu. Þess vegna voru þeim sagðar sögur til að hræða þau til gætni, og þær voru af Grýlu og jólasveinunum, sem gæti hrifsað burt allt góðgætið til jólanna, hámað í sig skyr, krækt sér í bjúgu og hangikjötslæri. Þau yrðu að haga sér vel, fara ekki út fyrir túnfótinn, hlýða, svo að þau færu ekki í jólaköttinn.

Úti í Norðurálfunni mátti hins vegar beita voninni sem stýritæki í stað óttans. Þegar börnin höguðu sér vel, þá gátu þau treyst því, að jólasveinninn kæmi með gjafir handa þeim. Flest lönd Norðurálfunnar voru miklu ríkari en Ísland, þar var bjartara í jólamánuðinum og auðveldara fyrir foreldra að fylgjast með börnum sínum. En hér á Íslandi útrýmdi rafmagnið myrkrinu og flest börn komast ekki út fyrir girðingar. Þess vegna á alþjóðlegi jólasveinninn miklu betur við nú. Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir þrettán eru fyrirbæri liðinnar tíðar. Vonin um gjafir fyrir hlýðni er áhrifameiri en óttinn við Grýlu og jólasveinina þrettán.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. desember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir