Sunnudagur 24.12.2023 - 09:23 - Rita ummæli

Nýja Jórvík, nóvember 2023

Fyrst kynntist ég Antony Fisher, sem síðar varð Sir Antony, haustið 1980, þegar hann bauð mér og fleiri gestum á ráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í Stanford í Kaliforníu heim til sín í San Francisco. Hann og kona hans Dorian áttu glæsilega íbúð á 11. hæð að 1750 Taylor Street. Fisher var í breska flughernum í seinni heimsstyrjöld og sá þar bróður sinn farast. Hann strengdi þess þá heit að berjast fyrir betri heimi. Í stríðslok las hann Leiðina til ánauðar eftir Friedrich A. von Hayek í útdrætti, sem birtist í Reader’s Digest, en þar hélt Hayek því fram, að þjóðernisjafnaðarstefna Hitlers og sameignarstefna Stalíns væru sömu ættar, og varaði jafnframt við tilraunum til að taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap, sem væri vart framkvæmanlegur nema í lögregluríki.

Fisher gekk á fund Hayeks til að leita ráða. Var hann að hugsa um að kasta sér út í stjórnmálabaráttu. Hayek sagði honum, að þeir menn hefðu mest áhrif, sem veldu dagskrána í stjórnmálum, réðu því, um hvað væri rætt og á hvaða forsendum, væru smiðir og hliðverðir hugmynda. Þess vegna skyldi hann stofna hugveitu. Fisher fór að ráðum Hayeks, og árið 1955 stofnaði hann Institute of Economic Affairs í Lundúnum, sem rannsakar, hvenær beita má verðlagningu í stað skattlagningar, leysa mál með frjálsum samtökum fólks frekar en valdboði að ofan. Hafði hún mikil áhrif á stefnu Thatchers og eftirmanna hennar.

Seinna átti Fisher eftir að endurtaka leikinn í öðrum löndum, og 1981 stofnaði hann Atlas Network, sem er alþjóðlegt net hugveitna. Nú eiga um 500 stofnanir í um 100 löndum aðild að netinu, og árlega heldur það uppskeruhátíð, Freedom Dinner. Árið 2023 var frelsiskvöldverðurinn í Nýju Jórvík 16. nóvember, og sótti ég hann. Foundation for Economic Freedom á Filipseyjum hlaut Templeton-verðlaunin fyrir markvissa starfsemi og Temba Nolutshungu frá Suður-Afríku Sir Antony Fisher-verðlaunin fyrir frumkvæði sitt og forystuhlutverk.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir