Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:21 - Rita ummæli

Palestínu-Arabar í Danmörku

Hegel sagði í inngangi að Söguspeki sinni, að þjóðir hefðu aldrei lært neitt af sögunni. Sennilega er eitthvað til í þessu. Íslendingar hyggjast nú taka við um 100 hælisleitendum frá Palestínu. Þetta er sami fjöldi og önnur Norðurlönd ætla að taka við til samans (en því til viðbótar taka þau auðvitað við eigin ríkisborgurum). En hvað skyldi sagan segja okkur?

Árið 1991 komst hópur 321 Palestínu-Araba til Danmerkur. Þeir leituðu hælis, en var synjað af þar til bærum yfirvöldum. Þá lögðu um hundrað þeirra undir sig kirkju í Kaupmannahöfn, og reis nú samúðarbylgja með þeim. Kim Larsen hélt tónleika þeim til stuðnings, og Anker Jørgensen, fyrrverandi forsætisráðherra, heimsótti þá í kirkjuna. Samþykktu vinstri flokkar á þingi sérstök lög árið 1992 um að veita fólkinu hæli.

Dönsk ráðuneyti hafa birt tölur um, hvernig þessum hópi hefur reitt af árin 1992–2019. Af þessum 321 Palestínu-Araba hafa 204, um tveir þriðju, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 71 fangelsisdóma. Af þessum 321 eru 176 eða röskur helmingur á framfæri hins opinbera.

Sumir benda á, að tölurnar séu ekki eins slæmar fyrir afkomendur þess. Þeir eru 999 talsins. Af þeim hafa 337, einn þriðji, hlotið dóma fyrir margvísleg afbrot, þar af 132 fangelsisdóma. Af þessum 999 manna hópi eru 372 á bótum, en tekið er fram, að af þeim bótaþegum séu 194 í starfsþjálfun.

Auðvitað eru Palestínu-Arabar að upplagi hvorki betri né verri en aðrir. En í menningu þeirra er ofbeldi liðið og jafnvel lofsungið og ekkert talið rangt við að þiggja bætur, þótt fólk sé fullhraust og geti unnið fyrir sér sjálft.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir