Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:18 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (2)

Í nýlegri grein í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, kveður dr. Gylfa Zoëga marga reyna að endurrita sögu bankahrunsins. Með þessum „mörgu“ á hann við mig. En málið snýst ekki um að endurrita neina sögu, heldur hafa það, sem sannara reynist. Gylfi styðst við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu. Á henni eru margir annmarkar. Einn er, að nefndin yfirheyrði menn ekki í heyranda hljóði eins og rannsóknarnefndir í Bretlandi og Bandaríkjunum gera. Eðlilegt hefði verið að sjónvarpa beint frá yfirheyrslunum. Þess í stað valdi nefndin sjálf úr það, sem hún taldi eiga erindi í skýrslu sína. Stakk hún ýmsu forvitnilegu undir stól.

Annar annmarki er, að nefndin einblíndi á innlenda þætti bankahrunsins, sem vissulega voru mikilvægir, en setti það ekki í alþjóðlegt samhengi. Það var hörð fjármálakreppa í heiminum, sem skall af meiri þunga á Íslandi en öðrum löndum.

Þriðji annmarkinn er, að nefndin veitti ófullkomna skýringu á bankahruninu. Hún sagði bankana hafa fallið, því að þeir hefðu verið of stórir. Röklega er þessi skýring svipuð þeirri, að gler brotni, af því að það sé brothætt, eða ópíum svæfi vegna svæfingarmáttar síns. Stærðin var nauðsynlegt, en ekki nægilegt skilyrði fyrir bankahruninu. Svissnesku bankarnir hrundu ekki, og var stærð þeirra þó tíföld landsframleiðsla. Samkvæmt útreikningum dr. Gylfa sjálfs var stærð íslenska bankakerfisins fyrir hrun þess um 7,8-föld landsframleiðsla.

Fjórði annmarkinn á skýrslu nefndarinnar er, að hún vildi sefa almenning með því að leita uppi sökudólga í hópi ráðamanna, en fann enga (þótt gagnrýni hennar á bankamenn væri um margt réttmæt). Þess vegna skapaði nefndin sökudólga með því að víkka út vanræksluhugtak gildandi laga, svo að hún gæti sakað sjö ráðamenn um vanrækslu. Lögfræðingarnir í nefndinni, Páll Hreinsson og Tryggvi Gunnarsson, vissu, hvað þeir voru að gera. Þeir tóku ætíð fram, að vanrækslan væri í skilningi laganna um nefndina, sem sett voru eftir bankahrunið. Til þess að sefa almenning beittu þeir lögum afturvirkt.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir