Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:18 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (3)

Nýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu íslenska bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, þótt ég sé ekki að reyna að endurskrifa söguna, heldur hafa það, sem sannara reynist. Hér skal ég benda á fjórar mikilvægar staðreyndir um bankahrunið, sem ég hef bent á, en aðrir leitt hjá sér, þar á meðal dr. Gylfi.
Fyrsta staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins þurfti ekki að beita hryðjuverkalögum til að koma í veg fyrir hugsanlega ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. Þegar hafði verið girt fyrir þann möguleika með tilskipun Breska fjármálaeftirlitsins til Landsbankans 3. október 2008, þar sem bankanum var bannað að flytja fé úr landi nema með skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins og þriggja daga fyrirvara. (Það reyndist ekki heldur vera fótur fyrir ásökunum um ólöglega fjármagnsflutninga Kaupþings til Íslands, enda þagnaði allt tal um það skyndilega.)
Önnur staðreyndin er, að ríkisstjórn breska Verkamannaflokksins braut samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, þegar hún bjargaði öllum breskum bönkum öðrum en þeim tveimur, sem voru í eigu Íslendinga, Heritable og KSF. Með því mismunaði stjórnin eftir þjóðerni, sem var bannað samkvæmt samningnum og líka Rómarsáttmálanum. Furðu sætir, að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins skuli ekki hafa gert athugasemd við þetta.
Þriðja staðreyndin er, að þessir tveir bankar, Heritable og KSF, sem bresk stjórnvöld lokuðu, um leið og þau björguðu öllum öðrum breskum bönkum, reyndust eiga fyrir skuldum, þegar upp var staðið. Svo virðist sem sumir aðrir breskir bankar, sem fengu aðstoð, til dæmis RBS, Royal Bank of Scotland, hafi hins vegar ekki átt fyrir skuldum, þótt kapp sé lagt á að fela tapið og fresta uppgjörum.
Fjórða staðreyndin er, að íslensku bankarnir gerðust ekki sekir um nærri því eins alvarleg brot og til dæmis Danske Bank, sem varð uppvís að stórkostlegu peningaþvætti, og RBS, sem tók þátt í ólöglegri hagræðingu vaxta á millibankamarkaði. Það er kaldhæðni örlaganna, að Danske Bank og RBS hefðu báðir fallið haustið 2008, hefðu þeir ekki fengið lausafjáraðstoð frá bandaríska seðlabankanum og Englandsbanka.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. janúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir