Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:19 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (4)

Nýlega sagði dr. Gylfi Zoëga í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti við mig, en ég hef sett fram þá skoðun, að bankahrunið hafi verið „svartur svanur“, óvæntur atburður, sem aðeins sé fyrirsjáanlegur eftir á. En auðvitað er það rétt, sem kom fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis á bankahruninu, að íslensku auðjöfrarnir fóru langt fram úr sjálfum sér. Þegar fyrrverandi ráðamenn eru hins vegar gagnrýndir fyrir að hafa ekki haldið þeim í skefjum, verður ekki aðeins að hafa í huga takmarkaðar valdheimildir þeirra, heldur líka hið einkennilega andrúmsloft í landinu. Þegar voldugasti auðjöfurinn, Jón Ásgeir Jóhannesson, sætti ákæru vorið 2005 fyrir ýmis efnahagsbrot, skrifaði vinur dr. Gylfa, Þorvaldur Gylfason: „Nú virðist standa til að jafna um Jón Ásgeir og fimm menn aðra fyrir rétti. Hvað býr að baki?“
Rannsóknarnefnd Alþingis sakaði í skýrslu sinni sjö fyrrverandi ráðamenn um vanrækslu, þótt hún beitti lögum afturvirkt, því að hún vísaði aðeins í lögin um nefndina sjálfa, og þau voru ekki sett fyrr en í árslok 2008. En spyrja má: Hvers vegna var þá Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki sökuð um vanrækslu? Hún hafði afgreitt viðvaranir Davíðs Oddssonar seðlabankastjóra sem „útaustur eins manns“ og hvatt bankana í septemberbyrjun 2008 til að halda áfram innlánasöfnun sinni erlendis. Hún bar líka ábyrgð á því, sem var líklega eina alvarlega brotið á góðum stjórnsýsluvenjum í aðdraganda bankahrunsins, að bankamálaráðherrann var ekki hafður með í ráðum í Glitniskaupunum. Og hvað um Jón Sigurðsson, formann stjórnar fjármálaeftirlitsins? Samkvæmt lögum átti forstjóri fjármálaeftirlitsins að bera allar „meiri háttar ákvarðanir“ undir stjórnina. Var Jóni hlíft, af því að hann var æskuvinur föður eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur? Og hafði það einhver áhrif, að varaformaður stjórnarinnar var gift einum starfsbróður annars nefndarmanns, Páls Hreinssonar? Ég tek fram, að meira máli skiptir að læra af reynslunni en leita uppi sökudólga, og eflaust er dr. Gylfi sammála mér um það. En ráðamennirnir sjö, sem rannsóknarnefndin hjó til, voru engu meiri sökudólgar en þau Ingibjörg Sólrún og Jón. Þetta fólk var allt að reyna að gera sitt besta.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. febrúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir