Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:20 - Rita ummæli

Sagnritun dr. Gylfa (5)

Nýlega kvartaði dr. Gylfi Zoëga undan því í málgagni vinstriöfgamanna, Heimildinni, að „margir“ reyndu að skrifa sögu bankahrunsins upp á nýtt. Hann átti aðallega við mig. Í skrifum sínum gerir dr. Gylfi mikið úr varnaðarorðum prófessors Roberts Z. Alibers um bankana vorið 2007. Aliber er þó ekki óskeikull. Hann spáði því í ársbyrjun 2010, að Grikkland myndi hrökklast út af evrusvæðinu, og í árslok 2013, að evrusvæðið myndi klofna í tvennt. Hvorugt gekk eftir. En ef maður þeytist um og spáir alls staðar ósköpum, þá hljóta einhverjar spárnar loks að rætast.
Aliber er þó glúrinn náungi, og dr. Gylfi hefði mátt taka mark á honum um tvennt. Í bókinni Manias, Panics, and Crashes: A History of Financial Crises, sem Aliber samdi ásamt Charles P. Kindleberger, er bent á (í 5. útg. 2005, 104. bls.) greinarmuninn á tvenns konar orsökum fjármálaáfalla: „causa remota“ (fjarlæg orsök) eru hin almenn skilyrði fyrir áfalli, en „causa proxima“ (nálæg orsök) sjálf kveikjan að áfallinu. Rannsóknarnefnd Alþingis á bankahruninu gerði aðeins grein fyrir „causa remota“, stærð bankakerfisins, sem var nauðsynlegt skilyrði fyrir bankahruninu, ekki nægilegt. Nefndin horfði fram hjá „causa proxima“, sem var, að Íslandi var synjað um sömu lausafjárfyrirgreiðslu og grannþjóðir fengu, svo að áhlaup á bankana leiddi til falls þeirra. Hún reyndi ekki að skýra þessa synjun.
Í Heimildinni heldur dr. Gylfi því fram, að Íslendingar hafi gert þrennt rétt í bankahruninu, að ábyrgjast ekki allar skuldir bankanna, að koma í veg fyrir bankaáhlaup innan lands með því að ábyrgjast innlendar innstæður og að leita aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann hefur rétt fyrir sér um fyrsta atriðið. En annað atriðið er ekki nákvæmt hjá honum: Ríkið gerði með lögum allar innstæður að forgangskröfum, jafnt erlendar og innlendar, en ábyrgðist ekki sérstaklega innlendar innstæður (á annan hátt en með almennum hughreystingarorðum, sem þó hrifu). Og um þriðja atriðið sagði Aliber: Fylgið áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en takið ekki lán hjá honum. Þetta stóra lán var aldrei notað, en bar háa vexti. Hér hafði Aliber rétt fyrir sér.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir