Miðvikudagur 06.03.2024 - 06:21 - Rita ummæli

Sálin gráni ekki

Í leikriti Shakespeares, Rómeó og Júlíu, heldur Capulet gamli dansleik, en þegar hann sér jafnaldra sinn einn taka þátt í dansinum, bandar hann honum frá og segir: „Við erum báðir vaxnir upp úr dansi!“ Þótt ég hafi orðið sjötíu og eins árs í febrúar á þessu ári, get ég ekki sagt, að ég sé vaxinn upp úr dansi, og naut ég þess á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro um það leyti.

Hitt er annað mál, að hárið hefur gránað með aldrinum. Rifjast þá upp, þegar þeir Steinn Steinarr og Dósóþeus Tímóteusson (sem aðallega var frægur fyrir sitt óvenjulega nafn) sátu saman við borð á Hressingarskálanum í Austurstræti einn góðan veðurdag árið 1951. Kom Dósóþeus auga á Tómas Guðmundsson annars staðar í salnum og sagði við Stein: „Hér situr Tómas skáld!“ Steinn mælti þá fram vísu, sem þegar varð fleyg.

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,
bjartur og hreinn sem fyrsta morgunsárið.
Ó, vinur, hvað mig tekur sárt að sjá,
að sálin hefur gránað fyrr en hárið.

Steinn var reiður Tómasi, sem hafði skopstælt órímuð ljóð Steins í vinsælum hláturleik (revíu) í Reykjavík, Bláu stjörnunni. Vísan er til í nokkrum útgáfum, en hér hef ég hana frá eiginkonu Steins, Ásthildi Björnsdóttur.

Auðvitað var þessi fyndni Steins ómakleg. Tómasi Guðmundssyni hafði aðeins orðið það á að vera ekki sami skipbrotsmaðurinn í lífinu og margir íslenskir rithöfundar. Þó fæ ég ekki betur séð en Steinn hafi í vísunni óafvitandi gefið það ráð, sem við á áttræðisaldri ættum sem flest að fylgja: að gæta þess, að sálin gráni ekki um leið og hárið.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir