Þriðjudagur 09.04.2024 - 07:27 - Rita ummæli

Matthías, Bjarni og Laxness

Þegar líður að forsetakjöri, má rifja upp sögu, sem minn góði vinur Matthías Johannessen, sem nú er nýlátinn, sagði stundum. Árið 1967 var vitað, að Ásgeir Ásgeirsson forseti myndi ekki gefa kost á sér til kjörs árið 1968, en tengdasonur hans, Gunnar Thoroddsen sendiherra, hafði að sögn hug á embættinu. Um haustið var rætt um hugsanlega frambjóðendur aðra, og var nafn Halldórs Laxness iðulega nefnt. Hann var talinn fremsti fulltrúi íslenskrar menningar, og hefði hann farið fram, hefðu ráðamenn átt erfitt með að styðja hann ekki. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bað Matthías því að kanna viðhorf Laxness. Matthías fór upp á Gljúfrastein og bryddaði upp á þessu við skáldið, sem varð undrandi (eða gerði sér upp undrun), en vísaði framboði kurteislega frá sér.

Síðar um haustið kom út greinasafn eftir Laxness, Íslendingaspjall, þar sem hann vandaði Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra ekki kveðjur, en Guðmundur hafði verið sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu: „Í þessu lögsagnarumdæmi mínu höfðum við sýslumann sem sjálfsagt hefur í upphafi verið ekki ógeðslegur maður, þó marklaus með öllu, en skapari hans hafði klúðrað á hann tréhendi svo alt sem hann kom nærri varð að axarskafti.“ Laxness nefndi ekki ástæðuna til fjandskapar síns: Hann hafði orðið uppvís að því að stinga undan skatti verulegum tekjum frá útlöndum árið 1946 og Guðmundur sýslumaður orðið að innheimta skattaskuldina. Eftir útkomu bókarinnar sagði Bjarni með breiðu brosi við Matthías: „Það var eins gott, Matthías minn, að Laxness vildi þetta ekki. Hugsaðu þér ástandið, ef forsetinn hefði skrifað aðrar eins skammir um utanríkisráðherrann.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. apríl 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir