Laugardagur 13.04.2024 - 09:05 - Rita ummæli

Matthías og Kalda stríðið

Matthías Johannessen sætti löngum árásum vinstri manna. Hann galt þess sem skáld og rithöfundur að vera ritstjóri Morgunblaðsins og stuðningsmaður vestræns samstarfs. Árið 1963 valdi hann bók sinni, Hugleiðingum og viðtölum, einkunnarorð úr frægu ljóði Stephans G. Stephanssonar, „Og lífsins kvöð og kjarni er það að líða/og kenna til í stormum sinna tíða.“ Þá hreytti Sverrir Kristjánsson út úr sér í Tímariti Máls og menningar: „Þegar allar þrettán bækur Matthíasar Johannessens, rímaðar, órímaðar og í prósa, verða horfnar aftur til uppruna síns og orðnar að leir, munu eikur Stepháns G. Stephánssonar standa enn djúpt í sinni gömlu mold, stoltar, fagrar og í fullu laufi.“ Dómur Sverris var með afbrigðum ósanngjarn. Margt af því, sem Matthías skildi eftir sig, á eftir að lifa lengi með þjóðinni. Hér skal ég aðeins nefna eitt. Það er drengilegur stuðningur Matthíasar við hina hugrökku andófsmenn í kommúnistaríkjunum sálugu. Morgunblaðið fylgdist vel með þeim og varði þá með oddi og egg.

Unga kynslóðin og jafnvel þeir, sem nú eru miðaldra, muna ekki þá tíð, þegar kommúnistar réðu hálfum heiminum og börðu þegna sína miskunnarlaust til hlýðni. Þeir áttu sér vitorðsmenn á Vesturlöndum, sem tóku áratugum saman við fjármunum og fyrirmælum frá Moskvu. Matthías barðist ódeigur gegn þeim í Kalda stríðinu. En eftir sigurinn í því stríði árin 1989–1991 mildaðist hann og ákvað, að ekkert uppgjör við íslenska kommúnista skyldi fara fram í Morgunblaðinu. Þetta orkar tvímælis. Átti þá ekki að gera upp við nasistana í Nürnberg? Og þá, sem leynt og ljóst gengu erinda nasista? „Kalda stríðið gerði engan okkar að betri mönnum,“ sagði Matthías við Halldór Guðmundsson, forstjóra Máls og menningar, en fyrir daga Halldórs þáði það fyrirtæki stórfé að austan og býr enn að því. Ég er ekki sammála Matthíasi. Kalda stríðið var óumflýjanlegt til að halda kommúnismanum í skefjum. Sem betur fer tóku Bandaríkjamenn að sér að verja Evrópu. Kalda stríðið var aðeins þeim til minnkunar, sem skipuðu sér í sveit með kúgurunum. Þegar Matthías leit um öxl, hefði hann frekar átt að hafa eftir orð hinnar helgu bókar: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir