Þriðjudagur 30.04.2024 - 09:18 - Rita ummæli

Fjölhæfur fræðimaður sækir Ísland heim

Vorið 1979, fyrir fjörutíu og fimm árum, var Félag frjálshyggjumanna stofnað á áttræðisafmæli Friedrichs A. von Hayeks, eins fremsta stjórnmálahugsuðar tuttugustu aldar. Fyrsti erlendi fyrirlesari félagsins þá um haustið var David Friedman, sonur hins heimsfræga hagfræðings Miltons Friedmans. David var eins og faðir hans mikill námsmaður, hafði lokið doktorsprófi í eðlisfræði, en snúið sér að lögum og hagfræði og birt margt um þau efni. Þegar hér var komið sögu, var hann hagfræðiprófessor í Virginia Polytechnic University í Virginíu og í fremstu röð svokallaðra markaðshyggjumanna, anarcho-capitalists, en þeir voru stjórnleysingjar, sem töldu einstaklinga á markaði geta leyst í viðskiptum sín í milli úr öllum málum, svo að ríkið væri óþarft frá fræðilegu sjónarmiði séð. Færði David hugvitsamleg rök fyrir markaðshyggju í bókinni Frelsinu í framkvæmd (The Machinery of Freedom) árið 1971.

Íslenska Þjóðveldið

Eitt dæmið, sem Friedman yngri nefndi, var Þjóðveldið íslenska, sem stóð 930–1262. Þótt ágreiningur sé um mörg þau verkefni, sem ríkið sinnir, telja flestir, að það hljóti að taka að sér landvarnir, lagasetningu og réttarvörslu. Friedman benti á, að í Þjóðveldinu var lagasetning og réttarvarsla í höndum einkaaðila, goðanna, sem komu saman einu sinni á ári á Þingvöllum, settu lög og skáru úr deilum. Þar eð þetta skipulag stóð í rösk þrjú hundruð ár, var það að minnsta kosti framkvæmanlegt. En var það hagkvæmt? Friedman taldi svo vera í þeim skilningi, að réttarvarslan hefði verið verðlögð eðlilega. Öll mál hefðu verið einkamál, ekki brot gegn ríkinu, því að það hefði ekki verið til. Vandamenn manns, sem var drepinn, hefðu krafist bóta fyrir hann eða gripið til þess ráðs að hefna drápsins. Fébætur hefðu þann kost fram yfir aftökur og refsivist, sagði Friedman, að fórnarlambinu eða fjölskyldu þess var bættur skaðinn, að minnsta kosti að einhverju marki. Lítilmagninn hefði getað leitað til goða síns eða framselt sök sína. Sérstakir sáttasemjarar hefðu oft verið kvaddir til, svo að stöðva mætti deilur eða gagnkvæm dráp. Íslenska þjóðveldið hefði verið tiltölulega stöðugt. Það hefði staðið í þrjú hundruð ár án stórkostlegra blóðsúthellinga ólíkt því, sem gerðist til dæmis í baráttunni um yfirráð yfir Englandi. Kristnitakan hér á landi hefði til dæmis verið furðufriðsamleg.

Samkvæmt greiningu Friedmans voru goðorðin í rauninni lítil verndarfyrirtæki, sem gátu gengið kaupum og sölum. Bændur gátu líka valið um goðorð innan síns landsfjórðungs, sagt sig frá einum goða og valið annan. Þeir nutu því tvímælalaust meira frelsis en víðast annars staðar á sama tíma. Íslendingar höfðu engan konung annan en lögin, sagði þýski sagnritarinn Adam frá Brimum hinn hrifnasti. Á Íslandi var þannig virkur markaður fyrir réttarvörslu.

Hitt er annað mál, að við greiningu Friedmans verður að bæta annarri einingu Þjóðveldisins, hreppnum. Aðild að honum var ekki frjáls, heldur var hver bóndi skyldugur að vera í þeim hrepp, sem jörð hans lá í, en venjulega afmarkaðist hreppurinn af landslagi. Hreppurinn gegndi tvíþættu hlutverki. Hann var í fyrsta lagi gagnkvæmt tryggingarfélag. Þegar á þurfti að halda, slógu bændur saman í sjóð og bættu hver öðrum tjón, sem þeir urðu fyrir vegna húsbruna eða fellis húsdýra, auk þess sem þeir sinntu framfærslu þeirra, sem ekki gátu séð um sig sjálfir. Jafnframt stjórnaði hreppurinn aðgangi bænda að beitarlöndum, sem þeir áttu og nýttu í sameiningu, aðallega upp til fjalla, svo að þessi aðgangur takmarkaðist við það, að grasnytjar yrðu sem bestar. Hver jörð átti sína „ítölu“, fastan fjölda þeirra sauða, sem reka mátti á fjall, „telja í“ almenninginn. Eins og Þráinn Eggertsson prófessor hefur bent á, leystu Íslendingar með þessu samnýtingarbölið (tragedy of the commons), sem er fólgið í því, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar.  (Hliðstætt dæmi er auðvitað í íslenskum sjávarútvegi.)

Fólksfjölgun og loftslagsbreytingar

David Friedman greinir eins og faðir hans Milton ýmis mál í ljósi kenningar hagfræðinnar um jaðarnotagildi. Sú kenning er einföld. Eðlilegt er að brjóta hverju vöru niður í einingar og spyrja, hversu margar einingar skuli framleiða. Svarið er, að bæta skuli við einingum að því marki, að notagildið af síðustu einingunni sé hið sama og af síðustu einingu af allri annarri vöru. Þá er hagkerfið komið í jafnvægi og verður ekki betrumbætt. Auðvitað gerist þetta aldrei, því að atvinnulífið er alltaf á hreyfingu, það er iðandi kös happa og glappa. Menn ramba stundum á snjallar lausnir, en oftar gera þeir mistök og reyna að leiðrétta þau, og ósjaldan verða óvæntar breytingar af ýmsum ástæðum, sem þeir hljóta að bregðast við. En fyrsta hagfræðilega úrlausnarefnið, sem Friedman tók til rannsóknar, var fólksfjölgun. Fram undir 1970 var sú skoðun almenn, að hún myndi leiða til hungursneyða og öngþveitis. Árið 1968 fullyrti líffræðingurinn Paul Ehrlich til dæmis, að ekkert gæti komið í veg fyrir stórkostlegt mannfall næstu ár og áratugi vegna fólksfjölgunar og fæðuskorts. Hið sama var sagt í bók, sem kom út á íslensku, Heimi á helvegi. Friedman spurði hins vegar, hver væri kostnaður og ábati af nýjum einstaklingi, sem fæddist inn í heiminn, jaðarnotagildi hans. Hann komst að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að segja fyrir um það með neinni vissu, að neikvæðar afleiðingar fólksfjölgunar yrðu meiri en jákvæðar. Nú er ljóst, að hrakspár Ehrlichs og margra annarra hafa að minnsta kosti ekki ræst.

Friedman beitir sömu greiningu í öðru máli, loftslagsvánni svokölluðu. Þótt deilt sé um spár Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum (IPCC), þar eð þær eru sóttar í tölvulíkön, tekur Friedman mark á þeim og spyr, hverjar verði afleiðingar af hlýnun jarðar um eitt eða tvö stig næstu áratugi, eins og spáð sé. Hann spyr með öðrum orðum, hvert sé notagildi hvers viðbótarhitastigs. Neikvæðar afleiðingar verða aðallega þrenns konar: hækkun sjávarmáls, röskun margvíslegra áætlana, sem menn hafa gert með hliðsjón af núverandi loftslagi, og hugsanleg útrýming dýrategunda, sem hafa lagað sig að núverandi loftslagi. Jákvæðar afleiðingar verða hins vegar aðallega stækkun gróðurlendis, þar á meðal og ekki síst í heimskautalöndum. Þetta hefur raunar verið að gerast síðustu áratugi, þótt fátt segi af því í fjölmiðlum. Af ýmsum ástæðum verður hlýnunin meiri í köldum löndum en heitum. Fróðlegt er í þessu sambandi, að samkvæmt tölum bandarísku lýðheilsustofnunarinnar deyja tvöfalt fleiri árlega sökum kulda en hita.

Friedman kemst að sömu niðurstöðu og um fólksfjölgun, að erfitt sé eða ókleift sé að segja fyrir um það með neinni vissu, hvort neikvæðar afleiðingar loftslagsbreyting verði meiri en jákvæðar. Hann bendir á, að loftslagsbreytingar eiga sér stað í rúmi eins og tíma. Menn fara úr einu loftslagi í annað, þegar þeir ferðast um jörðina, og þeir laga sig þá að breyttum aðstæðum. Hið sama hljóti að eiga við um loftslagsbreytingar í tíma. Menn lagi sig að breyttum aðstæðum.

Hvert stefnir?

David Friedman er staddur á Íslandi og ætlar að koma á rabbfund, sem RSE, Rannsóknarmiðstöð um samfélags- og efnahagsmál, heldur í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (NASA), miðvikudaginn 1. maí klukkan fjögur, og þar hyggst hann ræða um helstu breytingar í heiminum, frá því að hann kom hingað fyrst árið 1979, ungur og ákafur stjórnleysingi. Ýmislegt hefur gengið á: fall kommúnismans 1989–1991, uppgangur frjálshyggjunnar, hin alþjóðlega lausafjárkreppa 2007–2009, heimsfaraldurinn, staðbundin stríð, vöxtur ríkisins og margt fleira. Friedman er með afbrigðum mælskur, frjór og fjölhæfur, óbundinn af allri hefðarspeki, ungur í anda, og verður fróðlegt að vita, hvað hann hefur að segja.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir