Laugardagur 22.06.2024 - 11:31 - Rita ummæli

Upp komast svik um síðir

Kommúnistar um heim allan, líka á Íslandi, treystu því, að skjalasöfn í Rússlandi myndu aldrei opnast, svo að þeir sóru og sárt við lögðu, að þeir hefðu aldrei þegið eyri frá Moskvu, þótt margir þeirra fengju þaðan Rússagull, eins og upp komst eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna.

Annað dæmi er fróðlegt. Í aprílbyrjun árið 1979 dóu að minnsta kosti 68 manns úr blóðkýlasótt (anthrax) í borginni Sverdlovsk í Rússlandi, sem nú heitir Jekaterínbúrg. Í rússnesku útlagatímariti birtist frétt um, að orsökin væri leki frá rannsóknarstofu í sýklahernaði. Bandaríkjamenn og Bretar spurðust fyrir um málið. Yfirvöld harðneituðu þessu og kváðu blóðkýlasóttina hafa stafað af rangri meðferð matvæla. Þeir buðu kunnum bandarískum erfðafræðingi, Matthew Meselson frá Harvard-háskóla, til Moskvu, þar sem hann ræddi við embættismenn og komst að þeirri niðurstöðu, að skýring þeirra á slysinu stæðist, enda í samræmi við það, sem vitað væri um blóðkýlasótt. Breski örverufræðingurinn Vivian Wyatt studdi líka hina opinberu skýringu í grein í New Scientist.

Eftir hrun Ráðstjórnarríkjanna kom hið sanna í ljós. Þvert á alþjóðasamninga var einmitt rekin stór rannsóknastofa í sýklahernaði í borginni. Eitt sinn gleymdist að búa tryggilega um sýkilinn, sem veldur blóðkýlasótt, og barst hann út í andrúmsloftið, sem betur fer vegna vindáttar í úthverfi, en ekki inn í borgina, en þá hefðu hundruð þúsunda látið lífið. Rússneska leyniþjónustan, KGB, hafði eytt öllum sjúkraskrám og öðrum gögnum, en þó tókst að rannsaka málið og skýra slysið. Allt það, sem stjórnvöld höfðu sagt um það, reyndist vera haugalygi. Skyldi eitthvað svipað vera að segja um kórónuveiruna kínversku, sem herjaði á heimsbyggðina í nokkur ár?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir