Laugardagur 10.08.2024 - 16:59 - Rita ummæli

Signubakkar

Ólíkt höfumst við að, hugsaði ég, þegar ég var staddur í París á Bastilludaginn 2024, 14. júlí. Æstur múgur réðst þennan dag árið 1789 á Bastilluna, drap virkisstjórann, hjó af honum höfuðið og skálmaði með það á spjótsoddi um götur. Þá reyndust aðeins sjö fangar vera geymdir í virkinu. Þótt ótrúlegt sé halda Frakkar þjóðhátíð þennan dag. Eru þeir raunar eina Vesturlandaþjóðin sem efnir til hersýningar á þjóðhátíðardegi sínum. Það var ekki að ófyrirsynju að Einar Benediktsson orti í kvæði frá París um hina blóðdrukknu Signu. Vel fer hins vegar á því að Íslendingar hafa gert fæðingardag hins friðsama, frjálslynda og margfróða leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar, Jóns Sigurðssonar, að þjóðhátíðardegi sínum.

Á Signubökkum þennan júlídag glumdi við þjóðsöngur Frakka, en hann er blóði drifinn hersöngur, eins og þessi vísuorð úr honum í þýðingu Matthíasar Jochumssonar sýna:

Fram til orrustu, ættjarðarniðjar,

upp á vígbjartri herfrægðarstund.

… Því, landar, fylkið fljótt,

og fjandmenn höggvum skjótt.

Þjóðsöngur Íslendinga er hins vegar sálmur eftir Matthías sem saminn var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og frumfluttur í Dómkirkjunni fyrir réttum 150 árum, 2. ágúst 1874, að Danakonungi viðstöddum, en hann hafði fyrr á árinu fært Íslendingum stjórnarskrá sem fól í sér mikilvægar réttarbætur. Þjóðsöngur okkar er að sönnu erfiður í flutningi, en háleitur og áreitnislaus í garð annarra þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir