Laugardagur 17.08.2024 - 17:00 - Rita ummæli

Ólýðræðislegt?

Framundan er forsetakjör í Bandaríkjunum, og nýlega var kosið til þings í Bretlandi og Frakklandi. Þótt fyrirkomulag kosninga í þessum þremur löndum sé um margt ólíkt, er það sameiginlegt, að úrslit kosninga þurfa ekki að svara til atkvæðatalna. Verkamannaflokkurinn í Bretlandi fékk færri atkvæði en í síðustu kosningum, en miklu fleiri þingsæti. Skýringin var, að Íhaldsflokkurinn tapaði fjölda þingsæta, af því að í mörgum kjördæmum hirti Umbótaflokkurinn (Reform Party) af honum verulegt fylgi, svo að hann varð ekki lengur stærsti flokkurinn. Þjóðfylkingin í Frakklandi jók talsvert fylgi sitt í síðari umferð þingkosninganna, en af því að vinstri flokkar höfðu myndað bandalag gegn henni, skilaði það sér ekki í þingsætum. Vel getur verið, að forseti Bandaríkjanna verði kjörinn með minni hluta atkvæða samanlagt, vinni hann sigur í nokkrum ríkjum, sem ráðið geta úrslitum, en mörg önnur ríki eru næsta örugg vígi annars hvors stóra flokksins.

Sumir segja, að þetta sé ólýðræðislegt. Það er hæpið. Lýðræði er ekki fólgið í því að endurspegla atkvæðatölur, heldur í möguleikanum á að skipta friðsamlega um valdhafa, hafi þeir misst fylgi. „Höfuðkostur lýðræðis er sá, að það gerir kleift að losna við ríkisstjórn án þess að skjóta hana,“ sagði Vilmundur landlæknir Jónsson. Við einmenningskjördæmi eins og í Bretlandi myndast oftast tveir flokkar, sem kjósa má um, svo að valið milli þeirra er skýrt og ábyrgðin tvímælalaus. Í bandaríska forsetakjörinu er síðan tilgangslaust að leggja saman atkvæðatölur úr einstökum ríkjum til að reikna út einhvern meiri hluta kjósenda. Það eru ríkin fimmtíu, sem kjósa forsetann, og hann þarf að hafa meiri hluta á kjörmannasamkomu, sem skipuð er fulltrúum frá ríkjunum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir