Mánudagur 19.08.2024 - 16:53 - Rita ummæli

Ævisaga Miltons Friedmans

Jennifer Burns, sagnfræðingur í Stanford-háskóla, hefur gefið út ævisöguna Milton Friedman: The Last Conservative. Bókin er vönduð, sanngjörn og fróðleg. Í ritdómi í nettímaritinu The Conservative gerði ég þó þrjár efnislegar athugasemdir.

Höfundur bendir á hinn mikla stuðning, sem Friedman hlaut af tveimur konum, eiginkonu sinni Rose, sem aðstoðaði hann við mörg rit hans, og hagfræðingnum Önnu J. Schwartz, sem var meðhöfundur hans að Peningamálasögu Bandaríkjanna. En Friedman gerir alls ekki lítið úr þessari aðstoð.

Höfundur telur andstöðu Friedmans við lagasetningu árið 1964 um bann við mismunun eftir hörundslit eða kynferði varpa skugga á feril hans. Friedman var auðvitað andvígur slíkri mismunun. Hann taldi hins vegar heppilegast að auka tækifæri minnihlutahópa til að brjótast úr fátækt í bjargálnir á frjálsum markaði. Ef mismunun kostaði þann, sem mismunar, verulegar upphæðir, þá minnkaði mismunun af sjálfri sér. Hleypidómar hyrfu ekki, þegar sett væru lög gegn þeim, heldur þegar þeir reyndust of dýrir.

Höfundur telur, þótt hún láti það ekki beinlínis í ljós, að Friedman hefði ekki árið 1975 átt að veita umbótaáætlun Chicago-drengjanna svonefndu í Síle stuðning opinberlega, þótt hún bendi á, að hann átti þar engan annan hlut að máli. Hér ætlast hún til dygðaskreytingar (virtue signalling). En Friedman veitti öllum stjórnvöldum sömu ráð: um viðskiptafrelsi, valddreifingu og einkaeignarrétt. Þessi ráð þáðu jafnólíkir aðilar og herforingjastjórnin í Síle, stjórn íhaldsmanna í Bretlandi og stjórn jafnaðarmanna á Nýja Sjálandi. Sem betur fer.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir