Mánudagur 19.08.2024 - 16:52 - Rita ummæli

Danmörk til fyrirmyndar, um margt

Bandaríkjamönnum hefur orðið tíðrætt um Danmörku hin síðari ár. Öldungardeildarþingmaðurinn Bernie Sanders bendir á landið sem sérstaka fyrirmynd. Hagfræðingurinn Jeffrey Sachs telur, að dæmi Danmerkur og annarra Norðurlanda afsanni þá skoðun Friedrichs A. von Hayeks, að aukin ríkisafskipti skerði frelsi og leiði að lokum til lögregluríkis. Heimspekingurinn Francis Fukuyama heldur því á hinn bóginn fram, að í Danmörku hafi tekist að efla þá samkennd og almennu lýðmenntun, sem lýðræðinu sé nauðsynleg.

Eitt frjálsasta hagkerfi í heimi

Þegar að er gáð, sést, að Sanders og Sachs hafa rangt fyrir sér. Danmörk er síður en svo draumríki sósíalista. Samkvæmt alþjóðlegum mælingum Fraser stofnunarinnar í Kanada á atvinnufrelsi var danska hagkerfið árið 2021 hið 7. frjálsasta af 165 hagkerfum í heimi, á eftir hagkerfum Singapúr, Hong Kong, Sviss, Nýja Sjálands, Bandaríkjanna og Írlands. (Ófrjálsustu hagkerfin eru hins vegar í Venesúela, Simbabve, Sýrlandi, Súdan, Jemen, Íran og Líbíu. Hagkerfi Norður-Kóreu og Kúbu eru ekki mæld vegna skorts á áreiðanlegum upplýsingum. Íslenska hagkerfið var hið 22. frjálsasta árið 1990, hið 7. frjálsasta 2004 og hið 14. frjálsasta 2021.)
Fukuyama hefur hins vegar rétt fyrir sér. Danmörk er um margt til fyrirmyndar. Hann bendir líka á, að ein skýringin á því sé, hversu áhrifamikill hinn merki hugsuður, skáld, félagsmálafrömuður, prestur og stjórnmálamaður Nikolaj F. S. Grundtvig var. Hann er Íslendingum að góðu kunnur, því að hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar úr íslensku á dönsku og setti fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka ritað Egils sögu. Grundtvig var fylgismaður þjóðlegrar frjálshyggju, sem hann sótti ekki síst í hinn auðuga norræna menningararf. Eitt meginstefið í ritum Snorra er til dæmis munurinn á góðum konungum og vondum: Góðu konungarnir virtu lög, héldu uppi friði og lögðu á hóflega skatta. Vondu konungarnir butu lög, háðu stríð og þyngdu skattbyrðina. Snorri lýsir því, hvernig þeir voru settir af, gengju þeir of langt að góðra manna yfirsýn.

Þjóðleg frjálshyggja

Jafnvel á einveldistímanum danska frá 1660 til 1849 virti Danakonungur í aðalatriðum meginreglur réttarríkisins, sem birtust í upphafi Jyske lov, Jótalaga, frá 1241: Með lögum skal land byggja. Undir lok átjándu aldar hafði Adam Smith líka veruleg áhrif í Danmörku, en vinir hans og lærisveinar beittu sér fyrir því, að Auðlegð þjóðanna var þýdd á dönsku fyrst erlendra mála. Einokunarverslunin við Ísland og Finnmörku var afnumin, vistarband fellt úr gildi, konungsjarðir seldar og jörðum gósseigenda skipt upp, svo að dönskum sjálfseignarbændum fjölgaði úr tíu af hundraði í tvo þriðju bænda. Árið 1797 voru tollar lækkaðir verulega. Árið 1848 krafðist danskur almenningur þess síðan, að einveldið viki. Konungur lét undan, og 5. júní 1849 tók ný og frjálsleg stjórnarskrá gildi. Grundtvig sat á stjórnlagaþinginu, en helsta áhyggjuefni hans var, þegar valdið færðist úr höndum konungs, að það lenti ekki í höndum lýðskrumara og upphlaupsmanna.

Lýðurinn varð að fara gætilega með það vald, sem konungurinn hafði áður. Grundtvig beitti sér þess vegna fyrir alþýðumenntun í lýðskólum. Hann taldi málfrelsið einhverja helstu stoð upplýsts lýðræðis og orti frægt kvæði (Nordisk mytologi) um, að þetta frelsi væri norræn hugsjón, sem næði ekki síður til Loka en Þórs. Jafnframt var Grundtvig þjóðernissinni, sem taldi Dani eiga að rækta sögulega arfleifð sína og tungu, vakna til vitundar um sjálfa sig sem eina þjóð. En hann var frábitinn allri ágengni. Til dæmis lagði hann það til í deilum um Slésvík, þar sem norðurhlutinn var dönskumælandi og suðurhlutinn þýskumælandi, að héraðinu yrði skipt samkvæmt vilja íbúanna sjálfra. Varð það úr löngu eftir daga hans, þegar íbúarnir fengu að greiða um þetta atkvæði. Í öðru frægu kvæði (Folkeligt skal alt nu være) sagði hann, að þjóð mynduðu þeir, sem vildu vera þjóð, tala eigið móðurmál og eiga eigið föðurland.

Hinn danski þjóðarandi

Danir töldu sig bíða mikinn hnekki, er þeir misstu fyrst Noreg í hendur Svía 1814 og síðan Slésvík og Holtsetaland í hendur Þjóðverja 1864. En það var ekki síst fyrir áhrif Grundtvigs, sem þeir sneru ósigri í sigur, virkjuðu jafnt einkaframtak og samtakamátt og gerðust ein helsta menningarþjóð Norðurálfunnar. Einkunnarorð þeirra urðu þau, sem annað skáld, Hans Peter Holst, orti: Hvað udad tabes, skal indad vindes, úti fyrir tapað, skal inni endurskapað. Matthías Jochumsson orti í orðastað iðnjöfursins C. F. Tietgens, þegar hann gaf ungum íslenskum athafnamanni ráð:

Ég býð ekki Íslandi ölmusunáð;

ég ætla að gefa ykkur heillaráð:

Sá blessaðist aldrei í heimi hér,

sem hafði’ekki trú á sjálfum sér.

Þið eigið sjálfir að leysa landið,

losa’ykkur sjálfir við okurbandið.

Tietgen var einmitt einn af lærisveinum Grundtvigs og kostaði af honum styttuna, sem stendur fyrir framan Marmarakirkjuna í miðborg Kaupmannahafnar og óteljandi Íslendingar hafa gengið fram hjá.

Hinn frjálslyndi danski þjóðarandi sýnir sig ekki aðeins í orði, heldur líka í verki, eins og nefna má um tvö dæmi. Nasistar höfðu hernumið Danmörku vorið 1940, og eftir að danska stjórnin hafði í ágúst 1943 lagt niður völd í mótmælaskyni við yfirgang þeirra, hugðust þeir handsama alla danska gyðinga. Þetta spurðist út, og tóku þá Danir, háir og lágir, þegjandi og hljóðalaust, saman höndum um að koma þúsundum danskra gyðinga yfir Eyrarsund til Svíþjóðar. Þegar nasistar brunuðu á hervögnum sínum um Danmörku í októberbyrjun 1943 í leit að gyðingum, gripu þeir víðast í tómt. Af 7.800 dönskum gyðingum sluppu 7.220 yfir sundið, en aðeins 464 gyðingar náðust og voru sendir í fangabúðir. Hitt dæmið þekkja Íslendingar. Þótt Danir hefðu ólíkt ýmsum öðrum þjóðum komist löglega yfir íslensk handrit, ákváðu þeir að skila þeim til Íslands. Bretar og Frakkar taka hins vegar ekki í mál að skila til heimalandanna dýrgripum, sem þeir rændu í Grikklandi, Egyptalandi og víðar.

Umbætur síðustu áratuga

Danski flokkurinn Venstre hefur einkum haldið minningu Grundtvigs á lofti, og margir forsvarsmenn hans hafa verið eindregnir frjálshyggjumenn í anda hans. Má sérstaklega nefna hinn sjálfmenntaða bónda Thomas Madsen-Mygdal, forsætisráðherra 1926–1929, og hagfræðinginn Anders Fogh-Rasmussen, forsætisráðherra 2001–2009 og síðar framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Fogh-Rasmussen birti árið 1993 fróðlega bók, Fra socialstat til minimalstat (Úr félagshyggjuríki í lágmarksríki), þar sem hann benti á ýmsar leiðir til auka atvinnufrelsi og hagsæld í Danmörku. Eftir að hann varð forsætisráðherra, fór hann þó varlegar en margir samherjar hans vildu, og varð frægt í sjónvarpskappræðum, þegar leiðtogi jafnaðarmanna reif úr bók hans margar blaðsíður, sem hann taldi úreltar. Að vísu tókst Fogh-Rasmussen að stöðva skattahækkanir og auka atvinnufrelsi nokkuð, og árið 2009 voru skattar lækkaðir talsvert í Danmörku. Danska hagkerfið fór úr því að vera hið 17. frjálsasta í heimi árið 1985 í að vera hið 7. frjálsasta árið 2021.

Nú er hagfræðingurinn Otto Brøns-Petersen, sem aðstoðaði Fogh-Rasmussen við að skrifa bókina, staddur á Íslandi og ætlar að tala um „Reforming the Welfare State: The Case of Denmark“ þriðjudaginn 25. júní kl. 16.30 í Sjálfstæðishúsinu gamla við Austurvöll (Nasa). Brøns-Petersen var deildarstjóri í efnahagsráðuneytinu 1993–1999 og skrifstofustjóri skattaráðuneytisins 1999–2013, svo að hann gjörþekkir innviði danska hagkerfisins. Hann er nú sérfræðingur og ráðgjafi rannsóknarstofnunarinnar CEPOS í Kaupmannahöfn. Hann hefur kennt við Kaupmannahafnarháskóla og Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, er höfundur nokkurra bóka og er félagi í Mont Pelerin samtökunum, alþjóðasamtökum frjálslyndra fræðimanna, sem Friedrich A. von Hayek stofnaði vorið 1947. Verður fróðlegt að heyra mat hans á því, hvað Dönum hefur tekist — og mistekist — í fjármálum og atvinnumálum síðustu áratugi.

(Grein í Morgunblaðinu 24. júní 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir