Mánudagur 19.08.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Kári Stefánsson og Matt Ridley

Í Morgunblaðinu 23. júlí deilir Kári Stefánsson forstjóri á vísindarithöfundinn Matt Ridley, sem var á rabbfundi í Háskólanum 17. júlí, meðal annars um uppruna kórónuveirunnar, en hún olli dauða meira en tuttugu milljóna manna og setti alla heimsbyggðina á annan endann í tvö ár. Kári segir, að „Matt virðist hafa lagt áherslu á kenningar um uppruna veirunnar sem eru ekki vísindalegar vegna þess að það er ekki hægt að afsanna þær. Þær eru einfaldlega tilgátur sem eru studdar mjög fátæklegum gögnum ef nokkrum.“ Ég lærði það einmitt af vísindaheimspekingnum Karli R. Popper, eins og Kári hefur bersýnilega líka gert, að óhrekjanlegar kenningar eru varla vísindalegar. Þær mynda lokuð kerfi og geyma í sér skýringar á öllum frávikum, til dæmis marxismi og sálgreining. Þar hefur tilgátan alltaf rétt fyrir sér.

Ég bauð Kára á fundinn, en hann komst ekki. Hefði hann verið þar, þá hefði hann raunar heyrt mig spyrja Ridley, hvað þyrfti til að afsanna kenninguna um, að kórónuveiran hefði sloppið út af rannsóknarstofu í Wuhan, en Ridley telur það sennilegt og þó ekki sannað. Ridley svaraði: Ef eitthvert dýr finnst, sem ber veiruna í menn. Engin slík smitleið hefur fundist, ólíkt því sem var um aðra eldri kórónuveiru, sem upprunnin var í Guangdong-héraði í Kína og olli lungnafaraldri árið 2003 (SARS-1, sem kallað var, en heimsfaraldurinn núna heitir SARS-2). Tilgáta Ridleys um uppruna kórónuveirunnar er því í eðli sínu afsannanleg. Kári hefur rangt fyrir sér um þetta atriði. Væri hægðarleikur fyrir kínversk stjórnvöld að afsanna þessa tilgátu, væri hún röng, með því að opna allar gáttir fyrir vísindamönnum. Þess í stað hafa þau takmarkað mjög aðgang að upplýsingum. Hvers vegna hvílir þessi leynd yfir, ef engu er að leyna?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. júlí 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir