Ólíkt höfumst við að, hugsaði ég, þegar ég var staddur í París á Bastilludaginn 2024, 14. júlí. Æstur múgur réðst þennan dag árið 1789 á Bastilluna, drap virkisstjórann, hjó af honum höfuðið og skálmaði með það á spjótsoddi um götur. Þá reyndust aðeins sjö fangar vera geymdir í virkinu. Þótt ótrúlegt sé halda Frakkar þjóðhátíð þennan dag. Eru þeir raunar eina Vesturlandaþjóðin sem efnir til hersýningar á þjóðhátíðardegi sínum. Það var ekki að ófyrirsynju að Einar Benediktsson orti í kvæði frá París um hina blóðdrukknu Signu. Vel fer hins vegar á því að Íslendingar hafa gert fæðingardag hins friðsama, frjálslynda og margfróða leiðtoga sjálfstæðisbaráttunnar, Jóns Sigurðssonar, að þjóðhátíðardegi sínum.
Á Signubökkum þennan júlídag glumdi við þjóðsöngur Frakka, en hann er blóði drifinn hersöngur, eins og þessi vísuorð úr honum í þýðingu Matthíasar Jochumssonar sýna:
Fram til orrustu, ættjarðarniðjar,
upp á vígbjartri herfrægðarstund.
… Því, landar, fylkið fljótt,
og fjandmenn höggvum skjótt.
Þjóðsöngur Íslendinga er hins vegar sálmur eftir Matthías sem saminn var í tilefni þúsund ára afmælis Íslandsbyggðar og frumfluttur í Dómkirkjunni fyrir réttum 150 árum, 2. ágúst 1874, að Danakonungi viðstöddum, en hann hafði fyrr á árinu fært Íslendingum stjórnarskrá sem fól í sér mikilvægar réttarbætur. Þjóðsöngur okkar er að sönnu erfiður í flutningi, en háleitur og áreitnislaus í garð annarra þjóða.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2024.)
Rita ummæli