Mánudagur 19.08.2024 - 16:58 - Rita ummæli

Uppreisnin í Varsjá 1944

Böðullinn drepur tvisvar, fyrst með byssukúlunni, síðan með þögninni, sagði Elie Wiesel. Því skiptir máli að halda á lofti minningunni um fórnarlömb alræðisstefnunnar, nasisma og kommúnisma. Eitt áhrifamesta safn, sem ég hef komið í, er í Varsjá. Það er um uppreisnina, sem hófst þar í borg 1. ágúst 1944, fyrir áttatíu árum.

Þetta var sorgarsaga. Með griðasáttmála í ágúst 1939 skiptu Hitler og Stalín Mið- og Austur-Evrópu á milli sín. Í beinu framhaldi réðst Hitler á Pólland 1. september og lagði undir sig vesturhluta landsins. Sögðu Bretland og Frakkland Þýskalandi stríð á hendur, enda voru ríkin tvö skuldbundin til að liðsinna Pólverjum í átökum. Stalín réðst á Pólland 17. september og lagði undir sig austurhlutann, en Bretar og Frakkar höfðust nú ekki að. Hitler rauf hins vegar griðasáttmálann í júní 1941 og réðst á Rússland. Hann hafði horft upp á hina löku frammistöðu Rauða hersins í vetrarstríðinu við Finna 1939–1940 og hélt, að auðvelt yrði að ráða niðurlögum ráðstjórnarinnar, en eftir það gæti hann beygt Breta eins og Frakka áður.

Liðu nú ár. Sumarið 1944 var ljóst, að nasistar væru að tapa stríðinu. Rauða hernum hafði vaxið ásmegin, og sótti hann fram til vesturs. Þá sá pólska andspyrnuhreyfingin sér leik á borði og hóf uppreisn í Varsjá. En Stalín stöðvaði her sinn á austurbakka Vislu, sem rennur í gegnum Varsjá. Þaðan fylgdust Rússar aðgerðalausir með nasistum berja niður uppreisnina af ótrúlegri grimmd. Stalín leyfði ekki einu sinni flugvélum bandamanna, sem vörpuðu vistum niður í borgina, afnot af flugvöllum sínum. Hann vildi ekki sjálfstætt Pólland. Pólsku uppreisnarmennirnir gáfust upp 2. október. Hitler skipaði her sínum að leggja Varsjá í rúst, en fyrst gengu þýskir hermenn hús úr húsi og drápu alla, sem þeir gátu. Um þetta má ekki þegja.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir