Föstudagur 11.10.2024 - 05:56 - Rita ummæli

Markaðir og frumkvöðlar

Er auður Vesturlanda sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi? Spillir kapítalisminn umhverfinu og sóar auðlindum? Er kapítalisminn andlaust kapphlaup um efnisleg gæði, þar sem menn týna sálu sinni? Þessum spurningum svara nokkrir ræðumenn á ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta, Students for Liberty Europe, RSE, Rannsóknarmiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og fleiri aðila í Reykjavík laugardaginn 12. október kl. 14–18. Ber ráðstefnan yfirskriftina „Markaðir og frumkvöðlar“.

Þrælahald og nýlendustefna

Einn ræðumaðurinn er dr. Kristian Niemietz, aðalhagfræðingur hinnar áhrifamiklu stofnunar Institute of Economic Affairs í Lundúnum. Hann gaf fyrr á þessu ári út fróðlega bók, Imperial Measurement: A cost-benefit analysis of Western colonialism, Mælingar á nýlenduveldum: kostnaðar- og nytjagreining á vestrænni nýlendustefnu. Tilefnið var, að í afturköllunarfári (cancel culture) síðustu ára er því iðulega haldið fram, að auður Vesturlanda sé sóttur í arðrán á nýlendum og afrakstur af þrælahaldi. Niemietz minnir hins vegar á, að Adam Smith taldi nýlendur leiða af sér meira tap en gróða. En ef Smith hafði rétt fyrir sér, hvernig stóð þá á nýlendukapphlaupinu á nítjándu öld? Skýringin er, að tapið dreifðist á alla, en gróðann hirti tiltölulega fámennur hópur valdamanna. Jafnframt varð það metnaðarmál stærstu ríkjanna í Evrópu að eignast nýlendur.

Niemietz bendir á, að í Bretaveldi var utanríkisverslun aðeins lítill hluti heildarverslunar og aðallega við aðrar vestrænar þjóðir, ekki við nýlendurnar, auk þess sem þorri fjárfestinga var fjármagnaður með innlendum sparnaði og arði af verslun við aðrar vestrænar þjóðir. Það kostaði Breta líka stórfé að halda úti sínum volduga flota. Svipað var að segja um önnur nýlenduveldi. Þegar millifærslur frá Frakklandi til nýlendna þess og frá nýlendunum til Frakklands voru virtar saman, námu útgjöld umfram tekjur um 0,3 af hundraði ríkisútgjalda. Þýska ríkið hélt nákvæmt bókhald um útgjöld og tekjur af nýlendunum, og reyndist vera verulegt tap af þeim, en verslun við þær var hverfandi hluti af heildarverslun Þýskalands. Eina skýra dæmið um, að gróði af nýlendu hafi líklega verið meiri en tap, er líklega belgíska Kongó, en stjórn þess verður seint talin til fyrirmyndar. Þar var um arðrán að ræða. Þetta er undantekningin, sem sannar regluna.

Niemietz vekur athygli á, að nokkrar auðugustu þjóðir Evrópu áttu aldrei nýlendur, svo sem Noregur og Sviss. Hann hafnar því einnig, að þrælahald hafi borgað sig. Líklega voru einu jákvæðu áhrifin af því að þurfa ekki að greiða vinnulaun á plantekrum í Karíbahafi, að verð á sykri, tóbaki, kryddvöru, bómull og kaffi var lægra en ella. Verslun með þræla var ekki heldur mikilvægur þáttur í heildarverslun Breta og annarra þjóða. Niemietz gerir í bók sinni aðeins kostnaðar- og nytjagreiningu á þrælahaldi, svo að hann minnist ekki á þær þrjár umhugsunarverðu staðreyndir um það, að Arabar hófu það fyrr og hættu því síðar en vestrænar þjóðir, að Bretar beittu flota sínum hart á öndverðri nítjándu öld til að stöðva þrælaflutninga yfir Atlantshaf og að það voru aðallega afrískir héraðshöfðingjar, sem eltu uppi aðra Afríkumenn og seldu í þrældóm. Það ættu því aðrir að vera með meira samviskubit sökum þrælahalds en venjulegir Vesturlandabúar.

Umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis

Annar ræðumaður er Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, en óhætt er að segja, að hann njóti alþjóðlegrar viðurkenningar sem sérfræðingur um auðlindanýtingu. Er í næsta mánuði væntanlegt greinasafn eftir hann, Fish, Wealth, and Welfare, Fiskur, fé og farsæld, sem Almenna bókafélagið gefur út. Ragnar ætlar að segja frá tiltölulega nýjum skóla innan hagfræðinnar, _free market environmentalism,“ umhverfisvernd í krafti atvinnufrelsis. Frumforsenda þessa skóla er, að vernd krefjist verndara. Ef við viljum vernda gæði náttúrunnar, þá verðum við að finna þeim verndara. Hver er til dæmis skýringin á því, að fílar og nashyrningar í Afríku eru í útrýmingarhættu, en ekki sauðfé á Íslandi? Hún er, að sauðféð er í einkaeign, merkt og girt af. Eigendur þess gæta þess. Aristóteles benti einmitt á það forðum í gagnrýni sinni á sameignarboðskap Platóns, að það, sem allir eiga, hirðir enginn um. Einkaeignarréttur stuðlar að hagkvæmri nýtingu auðlinda og raunar líka mannlegra hæfileika. Fái menn ekki að uppskera sjálfir, þá hætta þeir að sá. Þessi hugsun birtist í þeirri íslensku alþýðuspeki, að sjaldan grói gras á almenningsgötu.

Tiltölulega einfalt er að mynda einkaeignarrétt á landi og kvikfénaði. Land er girt af og kvikfé merkt eigendum. En málið vandast, þegar margir nýta saman gæði. Eitt dæmi um það voru afréttirnar íslensku, sem sauðfé var beitt á að sumarlagi, en ekki borgaði sig að mynda á þeim einkaeignarrétt. Bændur í hverjum hrepp nýttu saman hverja afrétt. En þá varð til freistnivandi eða það, sem kallað hefur verið _samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Hver bóndi freistaðist til að reka of margt fé á fjall á sumrin, því að hann naut einn gróðans, en allir báru í sameiningu tapið. Þetta leystu fornmenn með hinni svokölluðu ítölu. Hver bóndi mátti aðeins _telja í“ afréttina tiltekinn fjölda sauðfjár. Og heildartala fjár í hverri afrétt var miðuð við það, að féð kæmi sem feitast af fjalli á haustin, eins og segir í Grágás.

Hliðstætt dæmi eru íslensku fiskimiðin. Á meðan aðgangur var ótakmarkaður að þessum takmörkuðu gæðum, freistaðist hver útgerðarmaður til að auka sóknina, því að hann hirti ávinninginn af aukningunni, en allir báru í sameiningu tapið, sem fólst í sífellt stærri fiskiskipaflota að eltast við sífellt minnkandi fiskistofna. Í rauninni varð sama lausn fyrir valinu á Íslandi og um grasnytjar að fornu, nema hvað í stað ítölu, sem fylgdi jörðum, kom kvóti, sem fylgdi skipum. Hver útgerðarmaður mátti aðeins veiða tiltekið hlutfall af leyfilegum heildarafla. Hann (eða hún) fékk aflaheimildir, kvóta, sem gekk kaupum og sölum, svo að þeir, sem veiddu með lægstum tilkostnaði og því mestum arði, gátu keypt út þá, sem síður voru fallnir til veiða. Þetta kerfi myndaðist fyrst í veiðum á uppsjávarfiski á áttunda áratug, en var síðan tekið upp í veiðum á botnfiski og varð heildstætt árið 1990. Er óhætt að segja, að vel hafi tekist til. Ólíkt öðrum þjóðum stunda Íslendingar sjálfbærar og arðbærar fiskveiðar.

Við upphaflega úthlutun aflaheimilda eða kvóta var fylgt svokallaðri afareglu (grandfathering), þar sem miðað var við aflareynslu. Ef útgerðarmaður hafði veitt fimm af hundraði heildarafla í fiskistofni árin áður en kvóti var settur á, þá fékk hann (eða hún) fimm af hundraði aflaheimildanna í þeim fiskistofni. Þannig varð lágmarksröskun á hag útgerðarmanna, eftir að óhjákvæmilegt varð að takmarka aðgang að fiskimiðunum.

Frumkvöðlar í öndvegi

Þriðji ræðumaðurinn er Ely Lassman, sem er aðeins 27 ára að aldri. Hann brautskráðist fyrir einu ári í hagfræði frá Bristol-háskóla á Englandi. Hann er formaður Prometheus on Campus, en þau samtök leitast við að kynna boðskap skáldkonunnar Ayns Rands í háskólum. Hafa bækur hennar selst í þrjátíu milljónum eintaka og skírskota ekki síst til ungs fólks. Almenna bókafélagið hefur gefið út þrjár skáldsögur Rands, Kíru ArgúnovuUppsprettuna og Undirstöðuna. Var Kíra Argúnova raunar framhaldssaga í Morgunblaðinu árið 1949. Rand flýði frá Rússlandi um miðjan þriðja áratug síðustu aldar, settist að í Bandaríkjunum og haslaði sér þar völl. Hún aðhylltist eindregna einstaklingshyggju og taldi skýjakljúfinn eitt af merkilegustu afrekum mannsandans.

Ayn Rand setti fram tvær frumlegar hugmyndir í skáldsögum sínum. Hin fyrri var, að kapítalisminn væri ekki andlaust kapphlaup um efnisleg gæði. Hetjur kapítalismans eða viðskiptaskipulagsins væru hins vegar ekki herforingjar á hvítum fákum eða mælskugarpar á torgum úti, heldur frumkvöðlar, iðnjöfrar, brautryðjendur, athafnamenn. Þeir lifa ekki sníkjulífi á náungum sínum, heldur skapa eitthvað nýtt, og aðrir njóta þess með þeim í frjálsum viðskiptum. Á meðan rithöfundarnir Halldór Guðjónsson frá Laxnesi og Þórbergur Þórðarson sátu á kaffihúsum við Aðalstræti og skröfuðu um, hvernig bæta mætti kjör íslenskrar alþýðu, sat Jón Þorláksson verkfræðingur á skrifstofu sinni í Bankastræti og lagði á ráðin um vegi og brýr, svo að fólk gæti komist leiðar sinnar fyrirhafnarlítið, teiknaði vatnsveitur, svo að það ætti aðgang að hreinu vatni, rafmagnsveitur, svo að það gæti kveikt ljós í vetrarmyrkrinu, og hitaveitur, svo að það gæti bægt frá sér vetrarkuldanum.

Seinni hugmyndin er í beinu framhaldi af hinni fyrri. Hún er sú spurning, hvað gerist, ef dugmesta fólkið gefst upp á að vinna fyrir aðra og finnur sér samastað, þar sem það getur notið eigin verka. Svarið er auðvitað, að þá hleypur óáran í þá, sem eftir sitja. Sífellt harðari átök verða um sífellt minni feng. Öll orkan fer í að skipta, engin í að skapa. Rand lýsir þessu eftirminnilega í Undirstöðunni, en mörg dæmi eru til um þetta í mannkynssögunni. Þau Ferdínand og Ísabella ráku gyðinga frá Spáni í lok fimmtándu aldar, en þeir höfðu staðið framarlega í vísindum, listum og atvinnulífi. Á Kúbu flýði allt dugmesta fólkið eftir valdatöku kommúnista, tíu af hundraði landsmanna, og afleiðingin varð almenn fátækt. Ef til vill er Svíþjóð besta dæmið. Um miðja nítjándu öld náðu eindregnir frjálshyggjumenn þar völdum og juku stórlega atvinnufrelsi. Fjöldi frumkvöðla spratt upp. Næstu hundrað árin var hagvöxtur í Svíþjóð ör, og þjóðin varð ein hin ríkasta í heimi. En upp úr 1970 náðu róttæklingar völdum í sænska jafnaðarmannaflokknum, sem áður hafði verið tiltölulega hófsamur, skattbyrði þyngdist stórlega, vöxtur einkageirans stöðvaðist, og athafnamenn hrökkluðust úr landi, ekki síst til Sviss. En upp úr 1990 sáu Svíar að sér og hafa verið að feta varlega aftur brautina í átt til öflugra einkaframtaks.

Raddir ungs fólks

Fjórir aðrir ræðumenn eru á ráðstefnunni. Tahmineh Dehbozorgi er 26 ára laganemi, fædd í Íran, en flýði ásamt foreldrum sínum til Bandaríkjanna árið 2015 og hefur síðan verið virk í ýmsum frelsissamtökum. Hún ætlar að minna fundarmenn á gildi frelsisins. Ida Johansson er 22 ára sænskur frumkvöðull, sem hætti í skóla 18 ára og stofnaði fyrirtæki, sem hún seldi nýlega. Hún ætlar að ræða um kynslóðir og kaupmátt. Lovro og Marin Lesic eru tvítugir Króatar, stunda nám í fjármálafræði í Zagreb, hafa stofnað fjárfestinga- og nýsköpunarfélag og fengið verðlaun fyrir ýmsar hugmyndir sínar. Ætla þeir að segja frá reynslu sinni og vonum. Verður fróðlegt að hlusta á þetta unga fólk segja frá reynslu sinni og áhugamálum. Anton Sveinn McKee, sem hefur fjórum sinnum keppt fyrir Ísland á Olympíuleikum, stjórnar ráðstefnunni, en henni er skipt í þrjár stuttar lotur, og stjórna þeim Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður, Frosti Logason hlaðvarpsstjóri og Haukur Ingi Jónsson, nemi í fjármálaverkfræði í Háskólanum í Reykjavík. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir nýsköpunarráðherra setur ráðstefnuna, en dr. Birgir Þór Runólfsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, mælir nokkur lokaorð.

(Grein í Morgunblaðinu 11. október 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir