Orðið „fasismi“ er nú lítið annað en skammaryrði. Það er þó ómaksins vert að leita sögulegrar merkingar þess. Fasismi einkennist að sögn bandaríska sagnfræðingsins Stanleys Paynes af þrennu: 1) andstöðu við frjálslyndisstefnu, íhaldsstefnu og kommúnisma; 2) tilraun til að taka stjórn á öllum sviðum þjóðlífsins og beina kröftum að ágengri utanríkisstefnu; 3) rómantískri dýrkun á ofbeldi, karlmennsku, æskufjöri og umfram allt öflugum leiðtogum, sem virkjað gætu fjöldann til samvirkrar framningar.
Samkvæmt þessu voru Mússólíní og Hitler vitaskuld fasistar. En er Donald Trump það? Því fer fjarri. Trump er að vísu andstæðingur kommúnisma, en sækir margt í frjálslyndisstefnu (lækkun skatta) og íhaldsstefnu (stuðning við fjölskylduna). Hann vill takmarka hlutverk ríkisins og hafnar ágengri utanríkisstefnu, en telur, að Evrópuríkin eigi að kosta sjálf varnir sínar, eins og eðlilegt er. Hann dregur að vísu upp þá mynd af sér, að hann sé öflugur leiðtogi, en hann vill einkum virkja einkaframtakið, ekki fjöldann.
Hvað er Trump þá? Hann er popúlisti, fylgismaður lýðstefnu, þótt spurningin sé, hvort hann meti meira lýðhylli en lýðskrum, að finna og framkvæma vilja kjósenda frekar en egna þá upp og æsa. Jafnframt jaðrar Trump við að vera forræðissinni, authoritarian.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2024.)
Rita ummæli