Laugardagur 30.11.2024 - 05:39 - Rita ummæli

Hugleiðingar á kjördag

Mér varð í kosningabaráttunni hugsað til orða Sigurðar Nordals í Íslenskri menningu árið 1942. „Háski sá, sem vofir yfir lýðræði nútímans og hefur víða gert það svo valt, er framar öllu fólginn í fláttskapnum, þegar almenningi er talin trú um, að hann sé kúgaður samkvæmt umboði frá honum sjálfum, eða hann er fyrst féflettur og síðan látinn þiggja sína eigin eign í mútur og náðargjafir,“ skrifaði Sigurður. „Allmargt má ganga á tréfótum um afkomu manna til þess að sá kostur sé betri að svipta þá dug og forsjá til frjálsrar sjálfbjargar og sambjargar.“

Það var ekki út í bláinn, þegar bandaríski blaðamaðurinn H. L. Mencken kvað kosningar vera uppboð á fyrirframstolnum munum. Frægur varð einn frambjóðandi Alþýðuflokksins, þegar hann var á framboði í Dalasýslu árið 1949. Fór hann á milli bæja með aðstoðarmanni sínum og spurði bændur, hvort þá vanhagaði ekki um eitthvað. Einhver þeirra dró seiminn og sagði, að flugvöll vantaði að vísu í sýsluna. Frambjóðandinn sneri sér að aðstoðarmanninum og sagði: „Skrifaðu flugvöll.“

Sigurður Nordal vék aftur að lýðræðinu í útvarpserindi 1957. „Ef fólki er innrætt, að ríkið eigi að leysa og geti leyst öll þess vandamál, fer það að lokum að kenna ríkinu um öll sín mein. Hvort tveggja er vitanlega jafnfjarstætt. Það verður bæði að grafa dýpra, skyggnast víðar um og seilast hærra en ríkisvaldið getur nokkurn tíma náð til þess að finna brýnustu þarfirnar, mestu verðmætin, alls konar mannlegt böl og bölvabætur.“

Í kosningabaráttu vilja oft gleymast takmarkanir lýðræðisins. Það er ekki allra meina bót, heldur friðsamleg aðferð til að skipta um valdhafa, sé þess talin þörf. Hitt er annað mál, að stundum verður í kosningum að velja skárri kost af tveimur. „Haldið fyrir nefið og kjósið Kristilega lýðræðisflokkinn,“ sagði ítalski blaðamaðurinn Indro Montanelli árið 1976, þegar hætta var á, að kommúnistaflokkurinn kæmist í stjórn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. nóvember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir