Laugardagur 21.12.2024 - 20:48 - Rita ummæli

Öllu má nafn gefa

Fyrsta stjórnin íslenska, sem gaf sjálfri sér nafn, var „stjórn hinna vinnandi stétta“, sem mynduð var 1934, en þrátt fyrir nafnið hafði hún að baki sér minni hluta kjósenda, 43,6%. Líklega hefði hún frekar átt að heita „stjórn hinna talandi stétta“. Önnur stjórn, sem hlaut sérstakt nafn, var þjóðstjórnin, sem mynduð var 1939. Hún var almennt talin ill nauðsyn, enda sagði Árni Pálsson prófessor: „Það vilja allir hafa hana, en enginn kannast við hana.“ Þá var ráðherrum fjölgað úr þremur í fimm, og Jón Helgason prófessor orti:

Eitt er þó nálega álíka veglegt hjá báðum,
því örlögin veittu oss í smæð vorri dýrmætan frama:
Ráðherratalan á Íslandi og Englandi er bráðum
orðin hin sama.

Sósíalistaflokkurinn var þó utan stjórnar, svo að hún var ekki raunveruleg þjóðstjórn. En vegna náinna tengsla Sósíalista við Kremlarbændur treystu aðrir þeim ekki. Þetta breyttist í stríðinu, þegar Rússar börðust við hlið Breta og Bandaríkjamanna. Árið 1944 myndaði Ólafur Thors nýsköpunarstjórnina með Sósíalistum. Þegar bandarískur sendimaður spurði, hvers vegna hann hefði myndað stjórn með kommúnistum, svaraði hann: „Þeir fengu svo góð meðmæli, frá Roosevelt og Churchill.“ Ef þeir gátu starfað með Stalín, þá gat hann það. Nýsköpunarstjórnin eyddi öllum stríðsgróðanum á þremur árum, stundum í þörf verkefni. Næsta stjórn, sem bar sérstakt nafn, var viðreisnarstjórnin, sem sat frá 1959 til 1971, beitti sér fyrir afnámi innflutningshaftanna og þótti farsæl.

Jafnframt voru stjórnir, sem Sjálfstæðisflokkurinn átti ekki aðild að, venjulega kallaðar vinstri stjórnir: Hermann Jónasson myndaði eina 1956, Ólafur Jóhannesson aðra 1971 og þá þriðju 1978. Steingrímur Hermannsson myndaði eina vinstri stjórn 1988 og Jóhanna Sigurðardóttir aðra 2009. Í stjórn Jóhönnu höfðu allir aðrir ráðherrar en hún sjálf starfað um eitthvert skeið í gamla Alþýðubandalaginu, arftaka Sósíalistaflokksins. Sú stjórn beið mesta kosningaósigur íslenskrar stjórnmálasögu árið 2013. En verður væntanleg stjórn þeirra Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland vinstri stjórn? Og það í miðri hægri bylgju hér og í heiminum öllum? Verður hún stjórn eyðenda eða greiðenda?

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. desember 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og sex? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir