Laugardagur 11.01.2025 - 20:52 - Rita ummæli

Strandveiðar og hvalveiðar

Menn geta eflaust stutt strandveiðar og hafnað hvalveiðum af tilfinningaástæðum, en þeir geta ekki fært nein frambærileg fræðileg rök fyrir því.

Kvótakerfið íslenska er hagkvæmasta lausnin, sem enn hefur fundist á „samnýtingarbölinu“ svokallaða (Tragedy of the Commons), en það er, að ótakmarkaður aðgangur að takmarkaðri auðlind leiðir til ofnýtingar hennar. Við kvótakerfið geta handhafar ótímabundinna og framseljanlegra kvóta skipulagt fjárfestingar sínar og rekstur á þann veg, að veiðarnar verði sem hagkvæmastar. Strandveiðar mynda hins vegar gat á þeim garði, sem kvótakerfið reisir í raun í kringum fiskimiðin. Þar verður til óhagkvæmt kapphlaup um að veiða sem mest, áður en veiðarnar eru stöðvaðar. Þar verður til sóun, sem bitnar að lokum á landsmönnum öllum.

Bann við hvalveiðum er ekki þáttur í neinni umhverfisvernd. Nóg er í sjónum af þeim tveimur stofnum, sem Íslendingar veiða, hrefnu og langreyði. Hvalur hefur enga þá sérstöðu heldur í náttúrunni, sem réttlætt gæti bann við að neyta hans. Slíkt bann væri jafnmikil trúargrilla og bann múslima við svínakjöti og hindúa við nautakjöti. Jafnframt stundar hvalur afrán. Hann étur um sex milljónir tonna á ári af smáfiski og öðru sjávarmeti á Íslandsmiðum, á meðan við löndum aðeins röskri einni milljón tonna af fiski. Það raskar jafnvægi að kippa einni dýrategund út úr fæðukeðjunni. Það er einmitt nauðsynlegt að grisja hvalastofnana tvo.

Hið eina skynsamlega er að stöðva strandveiðar og leyfa hvalveiðar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. janúar 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir