Laugardagur 25.01.2025 - 21:00 - Rita ummæli

Upphaf Íslendingasagna

Margar skýringar eru til á því að á Íslandi voru á þrettándu öld settar saman sögur sem áttu ekki sinn líka annars staðar. Hér skulu nefndar fjórar.

1) Íslendingar voru fáir og máttu sín ekki mikils. Eina vopn þeirra var orðsins brandur, mælskulistin, til dæmis þegar Haraldur blátönn Danakonungur gerði árið 982 upptækt skip í eigu Íslendings. Þá hefndu Íslendingar sín með því að yrkja um konung níðvísur, eina á hvert nef.

2) Íslendingar stunduðu aðallega sauðfjárbúskap, en þá var fátt við að iðja í skammdeginu annað en semja sögur og segja. Auðvitað var líka skammdegi annars staðar á Norðurlöndum, en þungamiðja menningarinnar lá þar sunnar.

3) Á þrettándu öld voru komnir hér til sögu höfðingjar sem höfðu nægileg fjárráð til að halda uppi skrifurum heilu veturna og útvega sér kálfskinn í bókfell, en það var ekki áhlaupsverk.

4) Íslendingar voru lausir við hinn langa arm konunga, en það skipti máli af þremur ástæðum. Í fyrsta lagi kom eitt söguefni beint upp í hendur þeirra: hvernig ráða mætti fram úr deilumálum í landi án framkvæmdavalds. Íslendingasögur eru um leitina að jafnvægi við þær aðstæður. Í öðru lagi var hér engin opinber ritskoðun, en konungum og hirðmönnum þeirra var ekki alltaf borin vel sagan í fornbókmenntum Íslendinga.

Í þriðja lagi rákust á tvær hugmyndir um lög og ríkisvald á þrettándu öld. Önnur var að lögin væru sammæli landsmanna, arfleifð kynslóðanna, og konungar undir þau seldir. Hin var að lögin væru fyrirmæli konunga og þeir þeim ofar. Upp úr þessum árekstri spruttu Íslendingasögur og konungasögur (til dæmis Egils saga og Heimskringla Snorra). Höfundar þessara sagna sóttu hvatningu til landnámsmanna, sem ekki vildu una sterku konungsvaldi, heldur varðveita fornt frelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. janúar 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir