Laugardagur 08.02.2025 - 21:04 - Rita ummæli

Fólksflutningar í ljósi sögunnar

Norðurlandaþjóðirnar hafa, eins og ég leiði rök að í nýrri bók á ensku, fundið ákjósanlega leið í sambúð þjóða (þótt áður fyrr hafi þær háð ófá stríð hver við aðra). Ef ein þjóð vill ekki lúta annarri, þá segir hún skilið við hana, eins og Norðmenn gerðu 1905, Finnar 1917 og Íslendingar 1918. Ef þjóðabrot er innan ríkis annarrar þjóðar og óánægt með hlutskipti sitt, þá fær það sjálfstjórn, Álandseyingar og Færeyingar. Ef ágreiningur er um landamæri, þá greiða íbúar í landamærahéruðum atkvæði um, í hvaða ríki þeir vilja vera, eins og í Slésvík 1920.

Því miður er norræna leiðin undantekning, ekki regla. Sumar þjóðir virðast ekki geta ekki búið saman vegna gagnkvæms haturs og reyna þá ýmist að útrýma hvor annarri eða hrekja hvor aðra burt. Tyrkir ráku um milljón grískumælandi menn burt eftir sigur í stríði við Grikkland 1922. Finnar flýðu allir sem einn, 400 þúsund manns, frá Kirjálalandi (Karelíu) 1940, eftir að Stalín lagði það undir sig. Um tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar frá Póllandi og Tékkóslóvakíu 1945, og eru það líklega mestu nauðungarflutningar sögunnar. Arabaríkin ráku 850 þúsund gyðinga til Ísrael eftir stofnun Ísraelsríkis 1948, og 726 þúsund Arabar flýðu þá frá Ísrael (þótt ólíkt Grikklandi, Finnlandi og Þýskalandi tækju Arabaríkin ekki á móti þessum bræðrum sínum og systrum, heldur lokuðu þau inni í flóttamannabúðum). Hátt í milljón frönskumælandi manna flýði frá Alsír árið 1962, enda var þeim tilkynnt, að þeir gætu valið um líkkistu eða ferðatösku.

Það er því ekkert nýtt, þegar Trump Bandaríkjaforseti segir einu leiðina í Gaza vera að flytja Arabana á svæðinu burt. Þeir virðast ekki vilja friðsamlega sambúð við Ísrael, eins og árásin 7. október 2023 sýndi, heldur er það beinlínis á stefnuskrá Hamas, sem nýtur líklega stuðnings flestra íbúanna, að útrýma Ísraelsríki. Ég er ekki að mæla með þessari dapurlegu leið, aðeins að benda á, að hún hefur oft verið valin, ef til vill stundum af illri nauðsyn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. febrúar 2023.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sjö? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir