Laugardagur 15.02.2025 - 21:10 - Rita ummæli

Skírt silfur og bleikt

Íslendinga þættir eru miklu styttri en Íslendinga sögur. Einn hinn skemmtilegasti er um Halldór Snorrason. Hann var dóttursonur Einars Þveræings og langalangafi Snorra Sturlusonar og hafði ungur verið í liði Væringja í Miklagarði ásamt Haraldi Sigurðssyni, hálfbróður Ólafs digra Noregskonungs. Þegar Haraldur varð konungur Noregs árið 1046, fylgdi Halldór honum.

Fyrst var slegin mynt í Noregi um 995, og var hún úr skíru eða brenndu silfri. En Haraldur konungur freistaðist til þess eins og valdsmenn fyrr og síðar að drýgja sjóði sína með því að framleiða verðlitla peninga. Voru peningar þeir, sem hann lét slá, blandaðir kopar að helmingi eða meira og kölluðust því bleikt silfur, Haraldsslátta. Um jólin 1049 skyldi konungur greiða Halldór mála. Þegar Halldór fékk peningana, sem reyndust úr bleiku silfri, en ekki skíru, kastaði hann þeim frá sér og var hinn reiðasti. Konungur þurfti hins vegar liðveislu Halldórs í herför, svo að hann sá sitt óvænna og greiddi honum málann í skíru silfri.

Í þessari sögu er lýst einum mikilvægasta rétti fólks, sem er að geta hafnað verðlitlum peningum. Það heldur valdsmönnum í skefjum. Þar sem gjaldeyrisviðskipti eru frjáls, er þetta tiltölulega auðvelt, en valdsmenn hafa einmitt freistast til þess fyrr og síðar að takmarka slík viðskipti og neyða menn til að taka við þeim peningum, sem þeir hafa framleitt. Um það snúast gjaldeyrishöft eins og þau, sem Íslendingar þoldu árin 1931–1960.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir