Mánudagur 24.02.2025 - 21:49 - Rita ummæli

72 ára

Hátíðir eiga að lyfta okkur upp úr hversdagslífinu, rifja upp, að við erum ekki maurar í þúfu, heldur einstaklingar í sálufélagi við ástvini, vini, fjölskyldu, samherja og samlanda.

Þótt árin færist yfir, er afmæli ætíð tilefni til hátíðarhalda. Þá hefur mér tekist að lifa af enn einn hringinn, sem jörðin fer í kringum sólina. Þegar ég átti 72 ára afmæli hinn 19. febrúar í ár, hélt ég upp á það með grillveislu heima hjá mér í Rio de Janeiro. Þá leituðu á hugann liðin stórafmæli, enda er minningin eina paradísin, sem enginn getur rekið okkur út úr.

Þegar ég varð þrítugur árið 1983, héldu vinir mínir mér fjölmennan fagnað í Héðinshúsinu, og flaug ég sérstaklega til Reykjavíkur frá Oxford, þar sem ég stundaði þá nám. Þeir Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Vilmundur Gylfason, formaður Bandalags jafnaðarmanna, kvöddu sér báðir hljóðs í samsætinu, og mæltist þeim vel.

Ég hélt upp á fertugsafmælið árið 1993 í góðra vina hóp í veitingastaðnum Skólabrú, þar sem þeir Davíð Oddsson, Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson og konur þeirra samfögnuðu mér.

Ég hélt upp á fimmtugsafmælið árið 2003 með móttöku á Hótel Sögu og kvöldverði með nokkrum vinum í Skólabæ, sem þá var samkomuhús háskólamanna. Fluttu þeir Davíð Oddsson og Ólafur Þ. Harðarson snjallar ræður í móttökunni.

Ég hélt upp á sextugsafmælið árið 2013 með móttöku í Háskólanum og kvöldverði í Þingholti, þar sem þeir Davíð, Kjartan og Gunnlaugur Sævar færðu mér skemmtilega afmælisgjöf, málverk eftir Stephen Lárus Stephen, sem nefnist „Hannes ófullgerður“, áskorun um að halda áfram á markaðri braut.

Á sjötugsafmælinu árið 2023 var ég á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro, en í maí það ár hélt Háskólinn fjölmenna starfslokaráðstefnu, þar sem margir góðir vinir, erlendir og innlendir, fluttu fróðlega fyrirlestra, sem aðgengilegir eru á netinu. Forseti Íslands bauð öllum ræðumönnunum til móttöku á Bessastöðum, forseti Alþingi bauð erlendu gestunum í Alþingishúsið og fjármálaráðherra hélt kvöldverð í Ráðherrabústaðnum. Gat viðskilnaður minn við Háskólann ekki orðið ánægjulegri.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. febrúar 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir