Laugardagur 01.03.2025 - 21:51 - Rita ummæli

Frelsishetjur Svía

Eitt af því, sem ég hef komist að í grúski mínu síðustu ár, er, að Svíar búa að sterkri frjálshyggjuarfleifð. Hún gerði þeim kleift að standast á sautjándu öld áhlaup konunga, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Guðs, og á tuttugustu öld áhlaup vinstri sinnaðra stjórnmálamanna, sem vildu ótakmarkað vald í nafni Alþýðunnar. Í sögu Svía standa nokkrar frelsishetjur upp úr.
Ein er Þórgnýr lögmaður Þórgnýsson, sem Snorri segir frá í Heimskringlu, en á þingi Svía árið 1018 tilkynnti hann Ólafi, konungi þeirra, að hann yrði að halda friðinn og fylgja gömlum lögum, ella yrði hann settur af og jafnvel drepinn. Hér var Þórgnýr að vísa í þá ævafornu reglu germanskra þjóða, að konungar væru bundnir af sömu lögum og þegnar þeirra.
Önnur frelsishetjan var aðalsmaðurinn og námueigandinn Engilbrekt Engilbrektsson, sem hafði forystu um uppreisn Svía árið 1434 gegn Eiríki af Pommern, en ári síðar komu fulltrúar ólíkra stétta saman í fyrsta sinn í bænum Arboga, og á sænska þingið rætur að rekja til þess fundar. Það var fram til 1866 stéttaþing og skiptist í fjórar deildir, aðals, klerka, borgara og bænda. Var þá fátítt í Norðurálfunni, að bændur ættu sérstaka fulltrúa á þingi. Orti Tómas Marteinsson biskup árið 1439 fræga drápu um Engilbrekt, og sagði þar, að frelsið væri gulli betra.
Þriðja frelsishetjan var fræðimaðurinn Olaus Petri, sem hét upphaflega Olof Petterson, en hann var lærisveinn Lúters í Wittenberg. Hann samdi Dómarabókina svokölluðu um 1530, en hún er jafnan sett fremst í lögbókum Svía og Finna. Þar er kveðið á um, að allir séu jafnir fyrir lögunum, fátæklingar jafnt og furstar. Ein meginskýringin á velgengni norrænna þjóða síðustu aldir er einmitt öflugt réttarríki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. mars 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir