Laugardagur 08.03.2025 - 21:52 - Rita ummæli

Tollheimta og sjórán

Fyrir rás viðburðanna lentu Íslendingar undir stjórn Danakonungs árið 1380, þegar Danakonungur, Ólafur Hákonarson, þá tíu ára, var kjörinn konungur Noregs. Móðir Ólafs, Margrét, dóttir Valdimars Danakonungs, var ríkisstjóri. En þegar Ólafur lést óvænt árið 1387, var úr vöndu að ráða. Margrét ákvað árið 1389 að ættleiða eina afkomanda föður síns á lífi, hinn sjö ára svein Bugislav af Pommern. Hann skipti þá um nafn, kallaðist Eiríkur og fluttist norður til Danmerkur. Varð hann konungur Noregs (og Íslands) árið 1389, konungur Danmerkur árið 1396 og Svíþjóðar sama ár.

Þótt Eiríkur væri konungur, stýrði Margrét ömmusystir hans ríkjum til dauðadags árið 1412. Sem konungur varð Eiríkur helst frægur fyrir að koma á Eyrarsundstollinum árið 1429. Urðu öll skip, sem fóru um Eyrarsund, að koma við í Helsingjaeyri og greiða toll af farmi sínum. Ella voru þau skotin í kaf með fallbyssum frá Krónborg. Margt varð Eiríki mótdrægt, og var hann settur af í Svíþjóð og Danmörku árið 1339 og í Noregi ári síðar. Hann fór til eyjunnar Gotlands og lifði næstu tíu árin á sjóránum. Þá vaknar forvitnileg spurning: Hvaða munur var á að leggja með Eyrarsundstollinum kostnað á skip, sem fóru um Eyrarsund, og leggja með sjóránum kostnað á skip, sem fóru um Eystrasalt? Það er gömul regla, að skatta skuli leggja á með samþykki réttkjörinna fulltrúa (No taxation without representation). Sú regla átti svo sannarlega ekki við um Eyrarsundstollinn, sem var innheimtur með hótunum um ofbeldi. Hann var síðan óhagkvæmur, því að hann dró úr alþjóðaviðskiptum. Verður mér í þessu sambandi hugsað til enska heimspekingins Gertrude Anscombe, sem sagði, að meginverkefni stjórnmálaheimspekinnar væri að skýra út muninn á ríkinu og bófafélögum, sem bjóða „vernd“ gegn gjaldi.

Eini munurinn á tollheimtu Eiríks og sjóránum er, sýnist mér, að tollheimtan var fyrirsjáanleg og eftir föstum reglum. Með öðrum orðum var munurinn sá, að Eyrarsundstollurinn var löghelgað sjórán.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. mars 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir