Sunnudagur 11.05.2025 - 15:15 - Rita ummæli

Dagar í Mexíkó

Á ráðstefnu í Mexíkóborg 16.–19. mars 2025 kynnti ég ekki aðeins nýútkomna bók mína á ensku um norræna og suðræna frjálshyggju, heldur tók einnig til máls, eftir að prófessor einn hafði rætt um Ameríkuhugtakið og minnst á, að á undan Kristófer Kólumbusi hefðu Íslendingar fundið Ameríku og líklega fleiri. Ég vitnaði í Oscar Wilde, sem sagði: „Íslendingar fundu Ameríku fyrstir, en höfðu vit á því að týna henni aftur.“ Þetta er fyndið, en ekki alls kostar nákvæmt, því að Íslendingar týndu ekki Ameríku, heldur hröktu frumbyggjar þá á brott, eins og lýst er í Grænlendinga söguog Eiríks sögu rauða, en ég hef gert útdrátt úr þeim á ensku undir nafninu The Saga of Gudrid, því að Guðríður Þorbjarnardóttir er í rauninni aðalsöguhetjan í þeim, fyrsta evrópska móðirin í Vesturheimi.
Ég fór líka með aðra gráa fyndni um fund Ameríku eftir þýska heimspekinginn Georg Christian Lichtenberg: „Sá Ameríkumaður, sem fyrstur fann Kólumbus, var óheppinn með fund sinn.“ Þetta er holl áminning um að gleyma ekki frumbyggjunum, sem fundu Ameríku langt á undan Íslendingum og Kólumbusi, líklega um 25 þúsund árum f. Kr., þegar þeir komu yfir Bering-sund frá Asíu. Evrópumenn báru með sér vestur um haf ýmsa smitsjúkdóma, sem þeir voru sjálfir orðnir ónæmir fyrir, en frumbyggjarnir ekki. Talið er, að í Ameríku hafi búið um 60 milljónir manna, áður en landnám Evrópumanna hófst, en allt að 90% þeirra hafi dáið úr bólusótt, myslingum, mýraköldu, inflúensu, taugaveiki, skarlatssótt og öðrum sjúkdómum. Hitt er annað mál, að líklega voru nýlenduherrar Spánverja skömminni skárri en keisarar Asteka og Inka, sem gengu fram af mikilli grimmd.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. mars 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir