Sunnudagur 11.05.2025 - 15:22 - Rita ummæli

Harvard-háskóli kveinkar sér

Margt hefur verið afrekað í vestrænum háskólum. En því miður eru þeir um þessar mundir að verða að vígjum ófrjálslyndrar hugsunar og einsleitni. Kannanir í Bandaríkjunum sýna, að hægri menn eru innan við 10% háskólakennara. Ef til vill var ein besta könnunin hér heima starfslokaráðstefna mín vorið 2023, en hana sótti aðeins einn kennari úr stjórnmálafræðideild, Stefanía Óskarsdóttir. Hinir tuttugu og fimm létu sig allir vanta.
Þegar ég kenndi í Háskólanum, komst ég að því, að Alþýðusamband Íslands kostaði námskeið um vinnumarkaðinn (sem yfirlýstur marxisti kenndi), Evrópusambandið námskeið um Evrópusamruna og Þróunarsamvinnustofnun lokaritgerðir um þróunarmál. Kynntust nemendur þá þeim sjónarmiðum, að það væri hagvöxtur, en ekki kjarabarátta, sem skilaði kjarabótum, að Evrópusambandið hefði breyst í þunglamalegt skriffinnskuveldi og að þróunaraðstoð væri oftast aðstoð án þróunar, enda yrði eina skilvirka þróunin fyrir tilstilli frjálsra alþjóðaviðskipta? (Þessu styrkjabrölti var þó hætt, ef til vill vegna athugasemda minna. Einnig var hætt að tala ensku á deildarfundum eftir andmæli mín, en Háskóli Íslands var einmitt stofnaður á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar árið 1911, svo að Íslendingar gætu numið íslenska sögu, ekki danska, íslensk lög, ekki dönsk, íslenskar bókmenntir, ekki danskar.)
Nú kveinkar Harvard-háskóli sér undan því, að Trump-stjórnin vilji skerða frelsi starfsmanna hans. Til er einfalt ráð við því: að hætta að taka við ríkisstyrkjum. Og þessi skóli var ekki beinlínis í fararbroddi frelsissinna, þegar hann rak nýlega fyrsta þeldökka garðprófastinn, lagaprófessorinn Ronald S. Sullivan, úr stöðu sinni fyrir að vera verjandi hins ógeðfellda Harveys Weinsteins. Kynjafræðingum í Harvard leið ekki vel út af þessu aukaverkefni Sullivans. En í réttarríki eiga allir heimtingu á réttlátri málsmeðferð, líka hinir ógeðfelldu. Eins og Grundtvig gamli orti: Frelsið er frelsi Loka ekki síður en Þórs. Eða eins og Karl Popper sagði mér: Vísindin eiga að vera frjáls samkeppni hugmynda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. apríl 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af átta og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir