Sunnudagur 11.05.2025 - 15:24 - Rita ummæli

Hvert stefnir Evrópa?

Sjaldan hefur verið meiri óvissa í alþjóðamálum en um þessar mundir. Bandaríkin réðu úrslitum um, að Bandamenn sigruðu Öxulveldin í seinni heimsstyrjöld, og eftir það gátu Evrópuríkin löngum treyst því, að hinn öflugi her Bandaríkjanna, með vopnabúr fullt af kjarnorku- og vetnissprengjum, verði þau gegn ásælni rússneskra kommúnista. Smám saman óx þeirri skoðun þó fylgi í Bandaríkjunum, að þau ættu ekki að kosta varnir Evrópu, heldur Evrópuríkin sjálf, þótt það væri ekki fyrr en Donald Trump var kjörinn forseti, fyrst 2016 og síðan 2024, að bandarísk stjórnvöld hættu að sitja við orðin tóm. Nú verða Evrópuríkin að standa á eigin fótum, kosta sjálf sínar varnir. Jafnframt hefur Evrópusambandið breyst og ekki til batnaðar. Það var upphaflega stofnað til að sameina þjóðir Evrópu um að velja frekar verð en sverð, frekar viðskipti en hernað. Það vann stórvirki á fyrstu þrjátíu og fimm starfsárum sínum, frá 1957 til 1992, þegar innri markaður Evrópu varð til og samkeppni framleiðenda um hylli neytenda harðnaði öllum í hag. En á öndverðum tíunda áratug síðustu aldar skipti Evrópusambandið um ham. Það hætti að einbeita sér að frjálsum viðskiptum og tók þess í stað að setja atvinnulífi rammar skorður með þeim afleiðingum, að ríki sambandsins drógust stórlega aftur úr Bandaríkjunum í efnahagsmálum. Sambandið hlóð tollmúra í kringum Evrópu. Það olli gremju í Bandaríkjunum og varð Trump Bandaríkjaforseta hvatning til að hefja hið óheppilega tollastríð sitt. Enn fremur virðist svo um þessar mundir sem Vesturveldin standi ekki einhuga saman gegn hinum nýju öxulveldum, Rússlandi, Kína, Íran og Norður-Kóreu. Því má spyrja: Hvert stefnir Evrópa? Þetta verður rætt á fundi RSE, Rannsóknamiðstöðvar í samfélags- og efnahagsmálum, og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála í gamla Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll (Nasa) fimmtudaginn 8. maí kl. 16.30. Tilefni fundarins er nýútkomin bók mín, Conservative Liberalism, North and South: Grundtvig, Einaudi and their Relevance Today, sem íhaldsflokkarnir í Evrópu gáfu út í Brüssel og hlaða má upp af netinu.

David Gress: Til varnar þjóðríkinu

DavidGressEinn frummælandi er danski sagnfræðingurinn dr. David Gress. Hann hefur verið fræðimaður á Hoover-stofnuninni í Kaliforníu (þar sem ég kynntist honum fyrst) og víðar og gefið út fjölda bóka, en hér nefni ég aðeins tvær. Í bókinni From Plato to Nato: The Idea of the West and its Opponents (Frá Plató til Nató. Hugmyndin um vestrið og óvinir þess) gagnrýnir Gress þá söguritun, sem dregur beina línu frá ritum grísk-rómverskra höfunda til bandarísku byltingarmannanna 1776 og eftirmanna þeirra. Þessi söguritun kom meðal annars fram í byrjendanámskeiðum í bandarískum háskólum um vestræna menningu og í ritröðum um mestu bækur Vesturlanda. Gress telur, að í þessa söguritun vanti hinar germönsku og kristnu rætur vestrænnar menningar. Frelsið sé ekki óhlutbundið hugtak, sem svifið hafi yfir vötnum í aldanna rás, heldur hafi það smám saman myndast í germönskum ættbálkum, þar sem allir voru jafnir og lögin voru sammæli, ekki fyrirmæli að ofan. Vestræn menning sé samþætting þriggja meginstrauma, hins grísk-rómverska, kristna og germanska. Ég er sammála honum um, að hinar germönsku rætur frjálshyggjunnar hafi verið vanmetnar, til dæmis hugmyndir Snorra Sturlusonar um, að valdhafar þurfi umboð þegna sinna og séu réttrækir, brjóti þeir alvarlega lög og venjur í ríkjum sínum.

Í bókinni EU Europas fjende (Evrópusambandið: Óvinur Evrópu) gagnrýnir Gress harðlega þróun Evrópusambandsins frá 1992, þegar það hefur verið að reyna að breytast úr ríkjasambandi í sambandsríki, úr opnum markaði í lokað ríki. Gress telur, að Evrópusambandið hafi villst af leið. Það íþyngi atvinnulífinu með sífellt fleiri og lengri reglugerðum. Það sé undir áhrifum umhverfisöfgafólks, sem vilji stöðva hagvöxt, og svokallaða fjölmenningarsinna, sem fjandskapist við kristna trú, þjóðmenningu og þjóðríki. Ef svo fer sem horfir, muni múslimar taka stjórn í voldugustu Evrópulöndunum, en margt í menningu þeirra sé andstætt menningu okkar, til dæmis kvenfyrirlitning og andúð á sparsemi, vinnusemi og hagvexti. Að þessu stuðlar holskefla innflytjenda frá múslimaríkjum, segir Gress. Í hinni nýútkomnu bók minni er kafli um einn landa Gress, Nikolai F. S. Grundtvig, sem var frjálslyndur stuðningsmaður þjóðríkisins. Fróðlegt verður að vita, hvað Gress segir um framtíð þjóðríkisins í Evrópu.

Alberto Mingardi: Frjálslynt Evrópusamband

AlbertoMingardiAnnar frummælandi er ítalski heimspekingurinn dr. Alberto Mingardi, sem er sérfræðingur í ritum Herberts Spencers, en hefur líka skrifað um margt annað. Mingardi er forstöðumaður Bruno Leoni stofnunarinnar í Mílanó (sem fornmenn kölluðu Melansborg) og prófessor í háskóla upplýsingatækni og tungumála, UILM, í sömu borg. Hann er jafnframt gistifræðimaður í Cato stofnuninni í Washington-borg og ritari Mont Pelerin samtakanna, sem Friedrich A. von Hayek, Milton Friedman og Karl R. Popper stofnuðu í Sviss árið 1947, en þau eru alþjóðlegt málfundafélag frjálslyndra fræðimanna, sem hittast reglulega. Í hinni nýútkomnu bók minni er einmitt kafli um einn stofnanda samtakanna, vin Hayeks, Luigi Einaudi, sem þá var seðlabankastjóri Ítalíu, en var forseti landsins 1948–1955. Einaudi var frjálslyndur hagfræðingur og er almennt talinn einn af „feðrum Evrópusambandsins“.

Einaudi var alþjóðahyggjumaður, heimsborgari. Hann vildi sem von var, að Evrópuríkin hættu að fórna ótal lífum ungra og efnilegra manna í stríðum. Þess í stað ættu þau að stofna ríkjasamband, þótt þjóðríkin skyldu standa áfram. En hann taldi, að lauslegt bandalag eins og Þjóðabandalagið milli stríða væri allt of veikt til að geta tryggt frið og frjáls viðskipti. Sjálfur hef ég þó varpað fram þeirri hugmynd, að Evrópusambandið hefði frekar átt að leita fyrirmyndar um framtíðarþróun  í Norðurlandaráði en Bandaríkjunum. Norðurlandaráð hefur verið vettvangur sjálfsprottinnar samhæfingar aðildarlandanna í hægum skrefum með lágmarksafsali fullveldis. Í bók minni reifa ég einmitt „norræna leið“ í alþjóðamálum, sem gæti átt erindi til alls heims. 1) Réttur til aðskilnaðar: Noregur 1905, Finnland 1917, Ísland 1918. 2) Landamærabreytingar við atkvæðagreiðslur: Slésvík 1920. 3) Sjálfstjórn þjóðabrota: Álandseyingar, Samar, Færeyingar, Grænlendingar. 4) Dómstólar skera úr deilumálum: Um Álandseyjar 1921 og Austur-Grænland 1933.

Borwick lávarður: Útganga Breta úr ESB

BorwickÞriðji frummælandinn er gamall vinur minn úr Mont Pelerin samtökunum, Jamie Borwick lávarður, fimmti barón af Borwick. Hann er einn af þeim níutíu aðalsmönnum, sem kjörnir eru til setu í deildinni, og skipar sér þar í röð íhaldsmanna. Eiginkona hans, Victoria, hefur raunar setið á þingi líka fyrir Íhaldsflokkinn. Borwick hefur stundað ýmis störf og setið í mörgum stjórnum, en um skeið rak hann fyrirtækið, sem framleiðir svörtu leigubílana í Lundúnaborg. Hann var eindreginn stuðningsmaður útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, Brexit.

Borwick hefur áreiðanlega margt að segja. Þótt Evrópusambandið hafi í orði kveðnu virt réttinn til aðskilnaðar, hefur það reynt eftir megni að torvelda útgöngu Breta úr sambandinu, og við það bætist, að áhrifamikill hópur úr bresku valdastéttinni hefur unnið markvisst gegn öllum tilraunum til að nýta þau tækifæri, sem útgangan veitti. Þeim aðilum í Bandaríkjunum, sem vilja sem minnst af öðrum löndum vita, hefur einnig vaxið ásmegin. Bretland stendur því að sumu leyti eitt í Evrópu, svipað og Ísland og Noregur, þótt öll séu löndin raunar í Atlantshafsbandalaginu. Samherji Borwicks í lávarðadeildinni, Daniel Hannan lávarður, hefur því varpað fram þeirri hugmynd, að þau bresku samveldislönd, sem líkust eru að menningu, Ástralía, Nýja Sjáland, Kanada og Stóra Bretland, stofni bandalag, sem stundi fríverslun og komi sér upp sameiginlegum vörnum, efli meðal annars kjarnorkuvopnabirgðir Breta, þótt það yrði að vísu mjög kostnaðarsamt. Það væri forvitnileg spurning, hvort Ísland ætti þar heima, jafnframt því sem það myndi treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin og innan Atlantshafsbandalagsins. Þetta gæti allt farið saman. Auðkýfingurinn Elon Musk hefur síðan varpað fram annarri athyglisverðri hugmynd, að Norður-Ameríka og Evrópa (vestan Rússlands og Hvíta-Rússlands) stofni eitt risastórt fríverslunarsvæði án tolla og annarra takmarkana á verslun.

Umbætur á Evrópusambandinu

Í hinni nýútkomnu bók minni ver ég þjóðríkið með sömu rökum og Grundtvig, sem einingarafl og vettvang til að rækta það, sem okkur er eiginlegt og okkur þykir æskilegt. Þar reifa ég einnig hina norrænu leið í alþjóðamálum og geri tillögur um umbætur á Evrópusambandinu, sem gætu hleypt nýju lífi í það. Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, mælir nokkur orð í byrjun fundarins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í lok fundarins, en jafnframt bregðast tveir ungir menn við orðum ræðumanna, þeir Haakon Teig, leiðtogi norskra íhaldsstúdenta, og Júlíus Viggó Ólafsson, formaður Heimdallar. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir, en fundinum stýrir Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður. Í móttökunni eftir fundinn mun ég flytja minni Hayeks, sem á afmæli 8. maí.

(Grein í Morgunblaðinu 7. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir