Sunnudagur 11.05.2025 - 15:22 - Rita ummæli

Samtal í Hámu

Dr. Gabriel Stein, fjárfestir í Lundúnum, flutti erindi á málstofu Hagfræðistofnunar mánudaginn 7. apríl 2025. Að því loknu fengum við okkur kaffi í Hámu, matstofu Háskólans. Að borði okkar komu tvö kurteis ungmenni, piltur og stúlka, sögðust vera frá Noregi og vildu fá að setjast hjá okkur. Í ljós kom, að þau voru trúboðar.
Ungmennin: Trúið þið á Guð?
Ég: Ja, hvað skal segja? Frumspekin fæst við þrjár gátur, tilvist Guðs, ódauðleika sálarinnar og frelsi viljans. Ég kem auga á þrenn rök fyrir tilvist Guðs. Hin fyrstu setti bekkjarbróðir minn úr menntaskóla fram í kvöldverðarboði hjá mér nýlega, Einar Stefánsson, prófessor og uppfinningamaður. Þau eru, að samtalið sé frjótt. Bænin er samtal við Guð, og hún auðveldar mönnum skynsamlegar ákvarðanir. Við þurfum einhvern til að tala við. Önnur rökin eru frá Pascal, að við ættum að veðja á tilvist Guðs, því að það kostar miklu meira að hafa rangt fyrir sér en rétt. Þriðju rökin eru frá Dostojevskíj: Ef Guð er ekki til, þá er allt leyfilegt.
Gabríel: Já, ég trúi á tilvist Guðs, en ég held, að miðaldaheimspekingurinn Móses Maímónídes hafi haft rétt fyrir sér um, að Guð felist í fjarveru, ekki nærveru.
Ég: Svipað og réttlæti er fjarvera ranglætis, friður fjarvera stríðs og frelsi fjarvera kúgunar?
Gabríel: Já, einmitt.
Ég: En hver er þá fjarveran, sem skilgreinir Guð?
Gabríel: Óskapnaður, ringulreið, kaos.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.
Ég: Já, þið eruð frá Noregi. Mér fannst fróðlegt að kynna mér Hans Nielsen Hauge, sem var í senn farandprédikari í Noregi á öndverðri nítjándu öld og athafnamaður. Hann rak mörg fyrirtæki og taldi, að Guði yrði best þjónað með því að græða fé. Sumir lærisveinar hans áttu þátt í því, að Norðmenn settu sér frjálslynda stjórnarskrá árið 1814.
Ungmennin: Þetta er mjög athyglisvert.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. apríl 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sjö og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir