Sunnudagur 11.05.2025 - 15:23 - Rita ummæli

Þegar sósíalisminn var stöðvaður

Þegar ég var í háskóla fyrir fimmtíu árum, var oft bent á Svíþjóð sem dæmi um vel heppnaðan sósíalisma, en öllum var ljóst, að sósíalisminn hefði misheppnast í Rússlandi, Kína og fylgiríkjum þeirra. Því fór þó fjarri, að Svíar hefðu hrundið í framkvæmd sósíalisma. Laust eftir miðja nítjándu öld höfðu frjálshyggjumenn eins og Johan August Gripenstedt og Louis De Geer völd, og þeir gerbreyttu Svíþjóð, snarjuku þar atvinnufrelsi með þeim afleiðingum, að hagvöxtur varð þar næstu hundrað ár einn hinn örasti í heimi.
Jafnaðarmenn komust að vísu til valda í Svíþjóð 1932, en fóru varlega og höfnuðu stéttabaráttu. Eftir heimskreppuna og heimsstyrjöldina seinni vildu þó sumir þeirra undir forystu hagfræðingsins Gunnars Myrdals taka upp miðstýrðan áætlunarbúskap. En þá var þýdd á sænsku bók, þar sem ensk-austurríski hagfræðingurinn Friedrich A. von Hayek færði rök fyrir því, að slíkur áætlunarbúskapur væri „leiðin til ánauðar“. Bókin olli hörðum deilum (planhushållningsdebatten). Einn þeirra, sem snerist á sveif með Hayek, var mælskugarpurinn og stjórnmálafræðiprófessorinn Herbert Tingsten.
Vorið 1945 hlustaði ungur íslenskur sósíalisti í Svíþjóð, Jónas H. Haralz, á Tingsten deila í útvarpi við einn kennara sinn, jafnaðarmanninn Karin Kock. „Féll mér þungt hversu grátt Tingsten tókst að leika Karinu Kock með beittum málflutningi sínum, en ég var að sjálfsögðu hliðhollur sjónarmiðum hennar,“ skrifaði Jónas síðar. Sænskir jafnaðarmenn hurfu næstu ár frá hugmyndum um miðstýrðan áætlunarbúskap og féllu í sitt fyrra far. Myrdal hraktist frá Svíþjóð. Sósíalisminn var stöðvaður. Það var síðan kaldhæðni örlaganna, að þeir Hayek og Myrdal deildu saman Nóbelsverðlaunum í hagfræði árið 1974.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. maí 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir