Evrópusambandið var stofnað árið 1957 til að verja og auka frelsi Evrópuþjóðanna. Þær voru orðnar fullsaddar á þeim látlausu stríðum, sem háð höfðu verið á meginlandinu, þegar harðskeyttir einræðisherrar reyndu að verða þar alvaldar, síðast þeir Napóleon og Hitler. Sérstaklega átti þetta við um Frakka og Þjóðverja. Forystumenn þeirra vildu nú smíða plóga úr sverðum. Þeir vissu, að tilhneiging manna til að skjóta á náungann minnkar, sjái þeir í honum væntanlegan viðskiptavin. Evrópusambandið, sem upphaflega hét Efnahagsbandalag Evrópu, var stofnað til þess, að þjóðir Evrópu gætu skapað verðmæti í krafti verkaskiptingar og viðskiptafrelsis, eins og Adam Smith hafði lýst í Auðlegð þjóðanna. Ef hagkvæmast er að rækta hveiti í Póllandi og vín í Portúgal, þá eiga þjóðir þessara landa að einbeita sér að því og skiptast síðan á hveiti og víni. Ítalski hagfræðingurinn Luigi Einaudi, einn frumkvöðull Evrópusambandsins (og forseti Ítalíu 1948–1955), kvað fávíslegt að tengja saman tvær byggðir með vegum, brúm eða höfnum, ætti síðan að torvelda umferð á milli byggðanna tveggja með girðingum eða tollmúrum. Tilgangur Efnahagsbandalags Evrópu var einmitt að tengja saman aðildarþjóðirnar og tryggja fjórfrelsið, frjálsan flutnings fjármagns, vöru, þjónustu og fólks milli landa. Hér hyggst ég ræða þá spurningu, hvort Evrópusambandið sé enn vinur frelsisins eins og í upphafi, en um hana verður ráðstefna Evrópusamtaka frjálslyndra stúdenta, European Students for Liberty, í Safnahúsinu við Hverfisgötu kl. tvö til hálffimm laugardaginn 4. október.
Úr Efnahagsbandalagi í Ríkjasamband
Sú tilraun, sem gerð var með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu, tókst með ágætum. Árin 1957–1993 runnu markaðir aðildarþjóðanna saman í einn markað, en það herti samkeppni, auðveldaði verkaskiptingu og jók hagkvæmni. Almenn lífskjör bötnuðu í Evrópu, og tækifærum fólks fjölgaði. Efnahagsbandalagið hafði í upphafi verið myndað af sex ríkjum á meginlandinu, Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Benelúx-löndunum þremur. Árið 1973 gengu Stóra Bretland, Írland og Danmörk í það, en Norðmenn höfnuðu aðild. Grikkland gekk í bandalagið 1981 og Spánn og Portúgal 1986, en Grænland gekk úr því 1982. Frá upphafi höfðu margir fylgismenn Efnahagsbandalagsins, þar á meðal Einaudi, verið þeirrar skoðunar, að efnahagssamruninn nægði ekki einn sér til að tryggja frið og frelsi í Evrópu. Bentu þeir á, að Þjóðabandalagið, sem stofnað hafði verið eftir fyrri heimsstyrjöld, hafði reynst gagnslítið. Sumir, aðallega Frakkar, voru líka lítt hrifnir af því, að Evrópuríkin þyrftu að treysta á Bandaríki Norður-Ameríku um öryggi sitt. Smám saman óx þeirri skoðun fylgi, að breyta skyldi Efnahagsbandalaginu í raunverulegt ríkjasamband, sambærilegt við Bandaríkin. Evrópusamruninn ætti að ná til stjórnmála ekki síður en atvinnulífs. Árið 1989 urðu síðan þau óvæntu tíðindi, að Berlínarmúrinn hrundi, og Þjóðverjar vildu þá ólmir sameina þýsku ríkin tvö. Frakkar samþykktu það með því skilyrði, að Þýskaland styddi frekari samruna Evrópuríkja, þar á meðal sameiginlegan gjaldmiðil.
Árið 1993 tók Maastricht-sáttmálinn gildi. Efnahagsbandalag Evrópu (sem hafði einnig um skeið verið nefnt Evrópubandalagið) breyttist í Evrópusambandið. Stofnanir Evrópusambandsins voru festar í sessi. Framkvæmdastjórn ESB í Brüssel, sem skipuð er embættismönnum undir stjórn framkvæmdastjóra, eins frá hverju aðildarríki, fer í raun með löggjafarvald og framkvæmdarvald. Evrópuþingið hefur lítil völd, og þarf mikið til þess, að það geti fellt úr gildi tilskipanir Framkvæmdastjórnarinnar. Að kröfu Frakka flyst þingið einu sinni í mánuði og með ærnum tilkostnaði frá Brüssel til Strassborgar, og kalla gárungar það því farandleikhúsið. Evrópudómstóllinn í Lúxemborg hefur reynst fylgispakur Framkvæmdastjórninni, enda veljast dómarar hans oftast úr röðum samrunasinna. Seðlabanki Evrópu í Frankfurt á að vera sameiginlegur seðlabanki þeirra ríkja, sem nota evru (en hún var tekin upp árið 1999), en samt sem áður voru seðlabankar þessara ríkja ekki lagðir niður. Auk þess starfa í Evrópusambandinu ráðherraráð og leiðtogaráð. Eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur árið 1991, gengu mörg ríki í Evrópusambandið, Svíþjóð, Austurríki og Finnland árið 1995, Kýpur, Tékkland, Ungverjaland, Eystrasaltsríkin þrjú, Malta, Pólland, Slóvakía og Slóvenía árið 2004, Búlgaría og Rúmenía árið 2007 og Króatía árið 2013. Norðmenn höfnuðu aftur aðild, og Svisslendingar hafa jafnvel hafnað aðild að Evrópska efnahagssvæðinu, EES, en gera tvíhliða samninga við ESB. Bretar gengu úr sambandinu árið 2020.
Öfugþróun í Evrópusambandinu
Milton Friedman sagði eitt sinn við mig, að Evrópusambandið væri ólýðræðislegt: „Í Brüssel heyrast almannahagsmunir eins og hvísl, en sérhagsmunir eins og öskur.“ Með almannahagsmunum átti Friedman aðallega við neytendur og skattgreiðendur. Hann var svo sannarlega ekki einn um þessa gagnrýni. Bent er á, að Framkvæmdastjórnin hafi ekkert lýðræðislegt umboð, þótt hún fari í senn með löggjafarvald og framkvæmdavald. Enn fremur sé Evrópuþingið í reynd lítið annað en málfundafélag. Einnig er minnt á, að Seðlabanki Evrópu hafi þverbrotið stofnskrá sína, en þar er lagt blátt bann við því, að hann veiti ríkjum evrusvæðisins lán. Hann á aðeins að halda uppi traustum gjaldmiðli og auðvelda greiðslumiðlun. Þegar látið var á þetta reyna fyrir Evrópudómstólnum eftir hina alþjóðlegu lausafjárkreppu 2007–2009, var kveðinn upp úrskurður, sem gekk þvert á stofnskrána. Ein meginregla Evrópusambandsins er nálægðarreglan svokallaða (subsidiarity principle), en samkvæmt henni á að taka ákvarðanir sem næst þeim, sem þær varða. Má rekja hana jafnt til Rómarréttar og venjuréttar germanskra þjóða. En nálægðarreglan hefur verið þverbrotin hvað eftir annað, eftir því sem miðstýring í Brüssel hefur aukist. Eitt dæmi er, að Evrópusambandið reynir eftir megni að torvelda Írum að bjóða fyrirtækjum lága skatta í því skyni að laða þau til sín. Annað dæmi er, að Evrópusambandið vill ekki leyfa aðildarríkjum að taka eigin ákvarðanir um ýmis siðferðileg ágreiningsmál, til dæmis fóstureyðingar. Allir eiga samkvæmt Brüssel-mönnum að hírast í jafnstóru rúmi, eins og hjá hinum illræmda gestgjafa Prókrústesi forðum, en hann hjó útlimi af þeim, sem þóttu of langir, og teygði á hinum, sem töldust of stuttir.
Evrópusambandið hefur einnig verið gagnrýnt fyrir ógagnsæi og spillingu. Marta Andreasen, sem var um skeið yfirbókari Framkvæmdastjórnarinnar, sagði í fyrirlestri á Íslandi árið 2013 frá því, þegar hún var rekin fyrir að gagnrýna spillingu innan sambandsins og neita að staðfesta reikninga þess. Endurskoðendur höfðu þá ekki staðfest reikninga sambandsins árum saman. Það hefur að vísu breyst, en endurskoðendurnir benda þó á, að aðildarríkin sjálf fari með um 80 af hundraði fjárveitinga ESB. Í sumum þessara ríkja er ekki jafnsterk hefð fyrir gætilegri meðferð almannafjár og á Norðurlöndum. Raunar er það umhugsunarefni, hvers vegna ESB er að endurdreifa fjármunum milli aðildarríkja, en lætur sér ekki nægja að smíða og halda uppi lagaramma utan um samskipti þeirra. Í því ljósi er það engin tilviljun, að þrjú auðugustu Evrópuríkin, Noregur, Sviss og Ísland, standa utan sambandsins. Þau myndu öll þrjú greiða miklu meira í sjóði sambandsins en þau fengju greitt úr þeim. Annað umhugsunarefni hlýtur að vakna, þegar landamæri eru opin. Það er, hvort rausnarlegt bótakerfi geti farið saman við óheftan innflutning fólks frá fátækum löndum utan Evrópu. „Eigi leið þú oss í freistni,“ segir í helgri bók. Vekja má í þriðja lagi athygli á þeirri algengu fullyrðingu, að Evrópusambandið hafi tryggt frið í Evrópu (en ESB fékk friðarverðlaun Nóbels árið 2012!). Þetta er ekki rétt. Það voru Bandaríkin með fjölmennu herliði í Evrópu og miklar birgðir af kjarnorkusprengjum heima fyrir, sem tryggðu eftir lok seinni heimsstyrjaldar, að Kremlverjar réðust ekki inn í Vestur-Evrópu, eins og þeir hefðu ella gert.
Tillögur til úrbóta
Evrópusambandið er komið til að vera. Þess vegna þarf að snúa við öfugþróun síðustu áratuga í stað þess að bölsótast. Í ræðum mínum og greinum víðs vegar um Evrópu síðustu ár hef ég tekið undir hugmyndir, sem stuðlað gætu að valddreifingu í stað miðstýringar. Ein er, að vald Framkvæmdastjórnarinnar sé takmarkað. Það sjái aðeins um stjórnsýslu innan ESB, en hafi ekki löggjafarvald. Önnur tillaga er, að löggjafarvaldið sé að nokkru leyti fært til Evrópuþingsins, en að langmestu leyti aftur til þjóðþinganna. Þriðja tillagan er, að Evrópuþinginu sé skipt í tvær deildir. Núverandi ráðherraráð ESB myndi aðra deildina, en núverandi Evrópuþing hina. Fjórða tillagan er, að Seðlabanka Evrópu sé gert að fara eftir stofnskrá sinni og viðurlög sett við brotum á henni. Fimmta tillagan er, að Evrópudómstólnum sé skipt í tvo dómstóla. Annar skeri aðeins úr málum, þar sem nálægðarreglan kunni að vera brotin, og mætti kalla hann Nálægðardómstólinn. Hinn dómstóllinn skeri úr öðrum þeim málum, sem falla nú undir Evrópudómstólinn. Sjötta tillagan er, að dómarar Evrópudómstólsins séu valdir úr röðum reyndra dómara í aðildarlöndunum, en ekki svokallaðra Evrópufræðinga, sem oftast eru ákafnir samrunasinnar. Þróun Evrópusambandsins í miðstýringarátt hefur verið knúin áfram af Framkvæmdastjórninni annars vegar og Evrópudómstólnum hins vegar.
Að baki þessum sex hugmyndum býr að snúa aftur til þess bandalags, sem stofnað var árið 1957 til varnar fjórfrelsinu, en fór á ranga braut upp úr 1990. Það var ótrúlegt, en um leið fróðlegt, að hlusta á Guy Verhofstadt, leiðtoga Evrópusamtakanna, ávarpa landsfund Viðreisnar 21. september síðast liðinn. Hann leyndi því ekki, hver væri hugsjón sín og annarra samrunasinna. Hún væri að geta af sér nýtt tröll, sem hann nefndi „risaveldi góðmennanna“, Bandaríki Evrópu, sem ættu að keppa við önnur risaveldi, aðallega þó Bandaríki Norður-Ameríku og Kínaveldi. Verhofstadt virtist hafa gleymt því, hversu litlu mátti muna á tuttugustu öld, að Evrópa yrði alræðisöflum að bráð. Vorið 1941 voru aðeins sex lýðræðisríki í Evrópu, Írland, Stóra Bretland, Ísland, Svíþjóð, Finnland og Sviss, og þá börðust Bretar einir við nasista (ásamt samveldislöndunum). Þeir og Bandaríkjamenn björguðu saman Evrópu. Og enn hafa Bandaríkin miklu meiri hernaðarmátt en nokkurt annað ríki. Eitt mikilvægasta verkefni næstu ára hlýtur því að vera að treysta varnarsamstarfið við Bandaríkin og Bretland innan Atlantshafsbandalagsins. Raunar er önnur fyrirmynd um samstarf þjóða okkur mun nærtækari en Evrópusambandið. Það er Norðurlandasamstarfið. Vegabréf höfðu verið afnumin, vinnumarkaður var orðinn sameiginlegur og gagnkvæm réttindi voru tryggð öllum norrænum borgurum, áður en Evrópusambandið varð til í núverandi mynd. Þetta var sjálfsprottin þróun án valdboðs og með lágmarksafsali fullveldis.
Á Ísland erindi í ESB?
Auðvitað var stofnun Evrópusambandsins árið 1957 fagnaðarefni, sérstaklega að Frakkar og Þjóðverjar skyldu ná sáttum. Mörg smáríki Evrópu eiga fullt erindi í Evrópusambandið, til dæmis Eystrasaltsríkin og Finnland. Þau þurftu ekki aðeins aðgang að mörkuðum, heldur líka bandamenn, eins og þau komust áþreifanlega að raun um í seinni heimsstyrjöld. En Ísland var aldrei aðili að þeim átökum á meginlandinu, sem Evrópusambandinu var ætlað að stöðva. Það hefur frá upphafi haft sérstöðu í Evrópu, eins og lesa má úr tveimur frægustu þingræðum Íslandssögunnar. Þorgeir Ljósvetningagoði bar árið 1000 saman Ísland og önnur ríki. „Hann sagði frá því, að konungar úr Norvegi og úr Danmörku höfðu haft ófrið og orrustur á milli sín langa tíð, til þess uns landsmenn gerðu frið á milli þeirra, þótt þeir vildu eigi.“ Aldarfjórðungi seinna minnti Einar Þveræingur enn á sérstöðu Íslands: „En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu því er þeir hafa haft síðan er land þetta byggðist þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á, hvorki um landaeign hér né um það að gjalda héðan ákveðnar skuldir.“ Ólíkt ríkjum á meginlandinu er Ísland (ásamt Grænlandi) áreiðanlega innan varnarlínu Bandaríkjanna, hvað sem á dynur. Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið fékk Ísland síðan nauðsynlegan aðgang að mörkuðum í Evrópu án þess að stofna til víðtækra stjórnmálaskuldbindinga, sem hefðu til dæmis takmarkað kostinn á viðskiptum við lönd utan Evrópusambandsins.
Í ræðu sinni á landsfundi Viðreisnar tók Verhofstadt sérstaklega fram, að Ísland yrði í einu og öllu að lúta reglum Evrópusambandsins, fengi það aðild að því. Annað væri ekki í boði. Evrópusambandið væri eins og hann orðaði það ekki matseðill, þar sem menn gætu valið og hafnað. En fróðlegt verður að vita, hvað fyrirlesararnir sex á ráðstefnu frjálslyndra stúdenta segja á laugardaginn um Evrópusambandið. Dr. Eamonn Butler er höfundur fjölmargra bóka, meðal annars um Friedrich von Hayek og Ludwig von Mises. Hann ræðir um Brexit, útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Butler er einlægur Íslandsvinur og skrifaði blaðagreinar til varnar Íslendingum, þegar ríkisstjórn Verkamannaflokksins beitti hryðjuverkalögum gegn þeim árið 2008. John Fund er einn af ritstjórum tímaritsins National Review og innanbúðar í bandarískum stjórnmálum, þar sem hann er kunnugur öllum helstu forystumönnum. Hann fræðir áheyrendur á því, hvað sé að gerast í Bandaríkjunum, jafnt fyrir opnum tjöldum og að tjaldabaki. Ragnar Árnason, prófessor emeritus í Háskóla Íslands, nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar fyrir framlag sitt til auðlindahagfræði, en hann mun greina rökin fyrir og gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Dr. Daniel Mitchell, sérfræðingur í skattamálum, skýrir, hvers vegna Evrópusambandið hefur staðnað í samanburði við Bandaríkin síðustu áratugi. Gale Pooley, hagfræðiprófessor í Utah Tech háskólanum, rökstyður bjartsýni um framtíðina, sé sköpunarmáttur kapítalismans virkjaður, en hann hefur nýlega gefið út bók um það efni. Siri Terjesen, hagfræðiprófessor í Florida Atlantic University og Viðskiptaháskólanum í Björgvin, ræðir um frumkvöðla og hagvöxt. Tveir ungir menn tala: Júlíus Viggó Ólafsson hagfræðinemi segir nokkur orð í byrjun, og Snorri Másson alþingismaður flytur lokaorð. Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur ókeypis, en vegna takmarkaðs rýmis í Safnahúsinu verða menn að skrá sig á vef RSE, sem styður ráðstefnuna, www.rse.is. Að ráðstefnunni lokinni verður móttaka í Safnahúsinu kl. 16.30 í boði RSE. Ungt fólk á öllum aldri er velkomið, hvort sem það stundar nám í framhaldsskóla, háskóla eða skóla lífsins.
(Grein í Morgunblaðinu 2. október 2025.)
Rita ummæli