Grein mín í Morgunblaðinu 22. september um stjórnspeki Snorra Sturlusonar, þar sem ég styðst við greiningu Sigurðar Líndals prófessors, hefur vakið nokkra athygli. Menn eru almennt sammála okkur Sigurði um, að í Heimskringlu gæti mikillar tortryggni í garð konunga, til dæmis í ræðu Einars Þveræings. Sumir halda því þó fram, að Snorri hafi í utanför sinni 1218–1220 lofað Noregskonungi að koma landinu undir hann. „Og sé það rétt varpar það ansi miklum skugga á hugmyndir um hann sem andstæðing erlends konungsvalds, eða sjálfstæðishetju,“ segir Einar Kárason í athugasemd við grein mína. En ekkert er til marks um slíkt loforð. Sturla Þórðarson, sem ber frænda sínum misjafnlega söguna, segir aðeins, að Snorri hafi lofað að leita til við Íslendinga að snúast til „hlýðni við Noregshöfðingja“, en skilið son sinn eftir sem gísl til að tryggja efndir.
Augljóst er, við hvað er átt. Norskir kaupmenn og íslenskir goðar höfðu árin á undan átt í mannskæðum átökum, og höfðu þeir Hákon konungur og Skúli jarl reiðst svo, að þeir íhuguðu vorið 1220 að senda her til Íslands. Til þess að afstýra slíkri herför lofaði Snorri að tryggja frið við kaupmenn samkvæmt samningnum, sem Íslendingar gerðu árið 1022 við Ólaf digra um rétt konungs á Íslandi og gagnkvæm réttindi Íslendinga og Norðmanna, „hlýðni við Noregshöfðingja“. Þetta gerði hann heimkominn haustið 1220. Var eftir það friður við kaupmenn. Létu þeir Hákon og Skúli sér það vel líka og sendu son Snorra heim til Íslands. Tekur sú gerð af öll tvímæli um, að Snorri hafði aðeins lofað Norðmönnum hlýðni við settar reglur, gerða samninga, en ekki að koma landinu undir konung. Hvergi er á það minnst, að þeir Hákon eða Skúli hafi talið Snorra rjúfa einhver loforð við sig. Ótalin er þó aðalröksemdin: Snorri var andvígur því að ganga á hönd Noregskonungs, eins og öll Heimskringla er til vitnis um.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. september 2025.)
Rita ummæli