Þegar ég kenndi stjórnmálaheimspeki í Háskóla Íslands, bað ég nemendur stundum að skýra muninn á nautn og fíkn, til dæmis á sælkera og átvagli eða gleðimanni og fyllirafti. Svarið var oftast, að munurinn lægi í því, hvort menn hefðu stjórn á sér. Ég benti þá á, að þetta væri ekkert svar, því að aðeins væri verið að umorða það, sem skýra þyrfti. Munurinn fælist eflaust í huglægri afstöðu okkar. Átvaglið væri sá, sem okkur fyndist háma í sig mat.
Svipað er að segja um ýmsar aðrar einkunnir. Þær segja meira um gerandann en þolandann. Danska skáldið N. F. S. Grundtvig var allra manna skarpskyggnastur. Hann þýddi Heimskringlu Snorra Sturlusonar á dönsku og setti í formálanum árið 1818 fyrstur fram þá tilgátu, að Snorri hefði líka samið Egils sögu. Hann sagði líka í formálanum, að Snorra hefði að ósekju verið lýst eins og ófreskju, „uhyre“. Með því átti hann við, að í Sturlungu er iðulega látið að því liggja, að hann hafi verið í senn lydda og nirfill. En Snorri var ekki lydda, heldur maður friðsamur, sem sneiddi hjá átökum ólíkt flestum öðrum höfðingjum á Sturlungaöld. Og Snorri var ekki nirfill, heldur maður hagsýnn, veitull þegar við átti, en ella fastheldinn á fé. Þegar til þess var til dæmis ætlast af honum, að hann legði við hjónaband Órækju, sonar síns, jarðir til hans, tregðaðist hann við, vegna þess að hann vissi, að Órækja myndi fara illa með þessar eignir, hann væri vandræðamaður.
Falsmyndin af Snorra í Sturlungu er ættuð frá frænda hans, Sturlu Þórðarsyni, sem gat ekki af ýmsum ástæðum unnt honum sannmælis.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. október 2025.)
Rita ummæli