Ég hef verið í sex hlaðvörpum þetta árið og farið um víðan völl. Eru frásagnir af boðskap mínum á heimasíðu RNH og hlekkir í viðtölin, sem flest eru í opinni dagskrá.
Ég var gestur Kristjáns Guðjónssonar og Lóu Bjarkar Björnsdóttur í Lestinni á RÚV 3. apríl 2025, þar sem ég ræddi aðallega um bandaríska hægrið, Donald Trump, Milton Friedman og Peter Thiel, en einnig um Margréti Thatcher.
Ég var gestur Birgis Liljars Soltani í Sláin inn 3. maí 2025. Ræddi ég þar meðal annars um Trump forseta, en ég er ekki haldinn Trump-heilkenninu, sem blindaði marga, þótt ég gerði ágreining við Trump um fríverslun, sem ég væri hlynntur, en hann ekki. Einnig ræddi ég um veiðigjöld á sjávarútveginn og vanda Sjálfstæðisflokksins.
Ég var gestur Bergþórs Mássonar í Skoðanabræðrum 9. maí 2025. Þar reifaði ég þá kenningu, að vinstri menn væru meiri vinstri menn en hægri menn hægri menn. Þeir væru knúðir áfram af ástríðu og óánægju með veruleikann.
Ég var gestur Hermanns Nökkva Gunnarssonar í Dagmálum Morgunblaðsins 22. ágúst 2025. Þar gagnrýndi ég árás öfgamanna á fund í Þjóðminjasafninu og hræsni íslenskra gyðingahatara og ræddi um íslenska vinstrið, þar sem öfgafyllsti hópurinn hefði dottið af þingi í fyrsta sinn frá 1937, og íslenska hægrið, sem gengi nú fram í fjórum flokkum.
Ég var gestur Gísla Freys Valdórssonar í Þjóðmálum 27. ágúst 2025. Vildi Gísli Freyr fá mig til að skilgreina frjálshyggju. Ég rifjaði upp sögu Eiríks af Pommern, sem gerðist sjóræningi, eftir að hann hafði verið settur af sem konungur Norðurlanda, þar á meðal Íslands. Spurningin væri, hvort hann hefði sem konungur verið skárri en sem sjóræningi.
Ég var gestur Þórarins Hjartarsonar í Einni pælingu 25. september 2025. Þórarinn gekk mjög á mig um starfslok mín í Háskólanum, og leiddi ég hann í allan sannleik um það. Ég ræddi líka um innflytjendamál, dugleysi lögreglustjórans í Reykjavík og kost manna á að komast undan vinnu með því að skilgreina sig sem öryrkja og kost karla á að sigra í kvennaíþróttum með því að skilgreina sig sem konur.
Rita ummæli