Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:53 - Rita ummæli

Snorri Fólgsnarjarl

Tvær staðreyndir skera úr um það, að Snorri Sturluson reyndi ekki að koma Íslandi undir konung. Hin fyrri er, að Heimskringla er samfelld viðvörun við því, að Íslendingar gangi á hönd Noregskonungi, þótt hóflega sé víða tekið til orða. Hin síðari er, að Snorri var tekinn af lífi með leyfi Noregskonungs. Ég hef síðan bent á, að Snorri lofaði engu um að koma Íslandi undir konung í fyrri utanför sinni 1218–1220, heldur aðeins því að vernda norska kaupmenn, og það loforð efndi hann, svo að konungur sendi aftur til Íslands son hans, sem hann hafði tekið gísl til að tryggja efndir.
Hvað um seinni utanför Snorra, 1237–1239? Sturla Þórðarson lætur að því liggja, að hann hafi árið 1239 þegið jarlsnafn úr hendi Skúla hertoga, sem hugðist hrifsa konungdóminn af tengdasyni sínum, Hákoni Hákonarsyni. Nú var Snorri góður vinur Skúla, sem eflaust hefur trúað honum fyrir þeirri ætlun sinni að hefja borgarastríð. En viðbrögð Snorra voru að flýta sér heim til Íslands. Svo mikilvægt taldi hann að forða sér, að hann hafði að engu farbann Hákonar konungs, heldur mælti: „Út vil ek.“ Snorri var maður friðsamur og gætinn og vissi ekki, hvernig stríðið myndi fara.
Eins og Guðbrandur Vigfússon benti á þegar á nítjándu öld, hefur nafnbótin Fólgsnarjarl átt við um eyna Fólgsn í Þrándheimsfirði, og hefur Skúli heitið vini sínum að gera hann að jarli yfir henni, eftir að hann yrði konungur Noregs. Nafnbótin merkti engan leynijarl, enda gat aðeins konungur gert menn að jörlum. Uppreisn Skúla mistókst, en Hákon konungur taldi, að hann gæti ekki lagt Ísland undir sig, á meðan Snorri sæti þar með öll sín ítök, goðorð, jarðir og fylgismenn, og skipaði því einum þjóni sínum, Gissuri Þorvaldssyni, að senda hann utan eða drepa ella. Gissur valdi seinni kostinn 23. september 1241.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fimm og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir