Miðvikudagur 15.10.2025 - 13:48 - Rita ummæli

Valkvæð forvitni

Oftar en einu sinni hef ég tekið eftir því, að forvitni fréttamanna er valkvæð. Þeir hafa aðeins áhuga á sumu. Séu fréttir fyrsta uppkastið að sögunni, þá er ekki von á góðu. Ég nefni tvö dæmi.
Í skýrslu árið 2018 fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið (aðgengileg á netinu) gat ég þess, að breska leyniþjónustan MI6 hafði mann á sínum snærum hér á landi til að afla upplýsinga um Icesave-málið. Þetta kom fyrst fram í bók árið 2009 eftir Roger Boyes, en þar er tekið fram, að sá maður hafi ekki starfað í sendiráði Breta í Reykjavík, enda var breski sendiherrann einn af þeim, sem veittu Boyes upplýsingar, og las hann handritið yfir. Ég komst að því, hver þessi njósnari Breta var, eins og fram kemur í skýrslu minni, en enginn hefur spurt mig, hver hann var. Hann reyndist vera einn samkennari minn í félagsvísindadeild. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um, hver njósnarinn var. Svo var ekki.
Í bók árið 2022 um landsdómsmálið benti ég á, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sat fámennan fund með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra 26. september 2007, þar sem hann lét í ljós þá skoðun eftir erfiðleika Paribas banka í Frakklandi og fall Northern Rock í Bretlandi, að bankakerfið íslenska kynni að falla. Þorgerður Katrín átti þá með manni sínum milljarða hlut í Kaupþingi. Röskum mánuði seinna báðu þau hjón um, að skuldbindingar þeirra yrðu fluttar í einkahlutafélag, en það var andstætt reglum Kaupþings. Það var þó látið eftir þeim í febrúar 2008 með þeim afleiðingum, að þau sluppu við gjaldþrot eftir bankahrunið í október. Þorgerður Katrín sat síðan að morgni 30. september 2008 ráðherrafund, þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði, að bankarnir væru að falla. Sama dag seldu þau hjón afganginn af hlutabréfum sínum í Kaupþingi fyrir 68,9 milljónir króna. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um þessa tvo gerninga ráðherrans. Svo var ekki.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. september 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og fimm? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir