Oftar en einu sinni hef ég tekið eftir því, að forvitni fréttamanna er valkvæð. Þeir hafa aðeins áhuga á sumu. Séu fréttir fyrsta uppkastið að sögunni, þá er ekki von á góðu. Ég nefni tvö dæmi.
Í skýrslu árið 2018 fyrir fjármálaráðuneytið um bankahrunið (aðgengileg á netinu) gat ég þess, að breska leyniþjónustan MI6 hafði mann á sínum snærum hér á landi til að afla upplýsinga um Icesave-málið. Þetta kom fyrst fram í bók árið 2009 eftir Roger Boyes, en þar er tekið fram, að sá maður hafi ekki starfað í sendiráði Breta í Reykjavík, enda var breski sendiherrann einn af þeim, sem veittu Boyes upplýsingar, og las hann handritið yfir. Ég komst að því, hver þessi njósnari Breta var, eins og fram kemur í skýrslu minni, en enginn hefur spurt mig, hver hann var. Hann reyndist vera einn samkennari minn í félagsvísindadeild. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um, hver njósnarinn var. Svo var ekki.
Í bók árið 2022 um landsdómsmálið benti ég á, að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þá varaformaður Sjálfstæðisflokksins, sat fámennan fund með Davíð Oddssyni seðlabankastjóra 26. september 2007, þar sem hann lét í ljós þá skoðun eftir erfiðleika Paribas banka í Frakklandi og fall Northern Rock í Bretlandi, að bankakerfið íslenska kynni að falla. Þorgerður Katrín átti þá með manni sínum milljarða hlut í Kaupþingi. Röskum mánuði seinna báðu þau hjón um, að skuldbindingar þeirra yrðu fluttar í einkahlutafélag, en það var andstætt reglum Kaupþings. Það var þó látið eftir þeim í febrúar 2008 með þeim afleiðingum, að þau sluppu við gjaldþrot eftir bankahrunið í október. Þorgerður Katrín sat síðan að morgni 30. september 2008 ráðherrafund, þar sem Davíð Oddsson seðlabankastjóri sagði, að bankarnir væru að falla. Sama dag seldu þau hjón afganginn af hlutabréfum sínum í Kaupþingi fyrir 68,9 milljónir króna. Ég hefði haldið, að einhver hefði orðið forvitinn um þessa tvo gerninga ráðherrans. Svo var ekki.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. september 2025.)
Rita ummæli