Laugardagur 18.10.2025 - 08:47 - Rita ummæli

Bréf mitt til samkennara í Háskólanum

Fundargerð Háskólaráðs frá 2. október 2025 hefur nú verið birt á netinu. Fyrir fundinum lá erindi frá prófessor Gylfa Zoëga vegna þess, að nokkrir starfsmenn Háskólans höfðu ásamt öðrum ruðst inn á málstofu um lífeyrismál, sem hann hugðist halda í Þjóðminjasafninu 6. ágúst á vegum stofnunar innan Háskólans. Þegar Gylfi og fyrirlesarinn á málstofunni reyndu að tala, gerðu þessir menn hróp að þeim, svo að ekki heyrðist mannsins mál, og neyddist Gylfi eftir nokkurt þóf til að slíta fundi. Í umræðum á þessum fundi Háskólaráðs var samkvæmt fundargerð lögð á það áhersla, að Háskólinn yrði vettvangur opinnar umræðu, þar sem ólík sjónarmið fengju að heyrast. Rektor bar fram tillögu um, að nefnd yrði skipuð til að setja skýrar reglur um viðbrögð við tilraunum til að raska fundafriði, og var hún samþykkt.

Bókun Ragnýjar Þóru

Ragný Þóra Guðjohnsen, dósent á menntavísindasviði, lagði hins vegar fram eftirfarandi bókun:

„Rannsóknastofnunin PRICE er starfrækt á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, https://english.hi.is/regulation-pension-research-institute-iceland-university-iceland/no-1832024. Á vegum PRICE var sl. sumar auglýstur fyrirlestur Gil Epstein, prófessors við ísraelska Bar-Ilan háskólann sem halda skyldi þann 6. ágúst 2025 í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins. Merki Háskóla Íslands var ekki á auglýsingunni.

Í erindi Gylfa Zoega til háskólaráðs er óskað eftir að ráðið leggi línurnar „svo að yfirvöld skólans leggi ekki blessun sína yfir lögbrot með þögn sinni“. Ekki hefur verið skorið úr um að lög hafi verið brotin í tengslum við viðburð PRICE sem vitnað er til. Af þeim ástæðum liggur fyrir að háskólaráð getur ekki tekið málið til umfjöllunar á þeim forsendum.

Í 5. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 kemur fram að háskólaráð marki heildarstefnu í kennslu og rannsóknum, móti skipulag háskóla […], hafi eftirlit með starfsemi háskólans í heild, einstakra skóla og háskólastofnana og beri ábyrgð á því að háskóli starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Þann 10. mars 2022 fordæmdi Háskóli Íslands innrás Rússa í Úkraínu og lýsti yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla sem og öllum íbúum landsins. Í yfirlýsingu háskólans kom fram „Allt samstarf við háskóla og stofnanir í Rússlandi hefur verið sett á ís. Almennt skulu aðgerðir ekki beinast að einstaklingum, og viðurkennt er að samstarf í menntun og rannsóknum er oft byggt á persónulegum tengslum. Margir akademískir starfsmenn og nemendur í Rússlandi hafa opinberlega mótmælt innrásinni. Það verður því að meta hvort framhald verði á samstarfi í hverju tilfelli fyrir sig [leturbreyting RÞG], en taka viðmið af stefnu stjórnvalda hverju sinni (sjá eftirfarandi slóð: https://hi.is/frettir/haskoli_islands_fordaemir_innras_russa_i_ukrainu ).

Í september sl. komst sjálfstæð alþjóðleg rannsóknarnefnd Sameinuðu þjóðanna (skipuð af Mannréttindaráði SÞ) að þeirri niðurstöðu að „Ísrael sé að fremja þjóðarmorð“ á Gasa.

Þann 7. maí sl. gáfu utanríkisráðherrar Íslands, Írlands, Lúxemborgar, Noregs, Slóveníu og Spánar út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir hafna öllum hugmyndum um brottflutning Palestínumanna frá Gaza enda væru þær brot á alþjóðalögum (sjá: https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2025/05/07/Sameiginleg-yfirlysing-um-Gaza/)

Þann 12. ágúst sl. fór utanríkisráðherra Íslands, tuttugu og átta samstarfsráðherrar hennar og utanríkismálastjóra Evrópusambandsins, fram á við ísraelsk stjórnvöld að þau heimili nú þegar flæði neyðaraðstoðar inn á Gaza og að alþjóðastofnunum og alþjóðlegum mannúðarsamtökum verði gert kleift að koma þeirri aðstoð til skila til að koma í veg fyrir frekari hungursneyð á Gaza. Nú er talið að meira en 63 þúsund manns hafa látið lífið á Gaza, þar á meðal er stór hluti almennir borgarar og börn.

Þegar metið er í ljósi þessa hvort réttlætanlegt sé að fordæma innrás Ísraels í Gaza eins og gert var með innrás Rússa í Úkraínu – verður að teljast yfir allan vafa hafið – að rétt sé að fara sömu leið.

Varðandi fyrirlestur Gil Epstein þá hefði verið rétt við ákvarðanatöku um viðburðinn að hafa í huga að fyrirlesari er prófessor við Bar-Ilan háskóla og situr í stjórn BESA stofnunarinnar sem tilheyrir háskólanum. Stofnunin leggur áherslu á rannsóknir á málefnum sem tengjast öryggi, varnarmálum og alþjóðasamskiptum, einkum áskoranir tengdar þjóðaröryggi Ísraels. Stofnunin gegnir því veigamiklu hlutverki þegar kemur að utanríkisstefnu Ísraels.

Það er von undirritaðrar sem fulltrúa í háskólaráði og sem starfsmanns Háskóla Íslands að í allri starfsemi skólans séu sjónarmið um mannúð og mannréttindi höfð í heiðri ofar öðrum sjónarmiðum.“

Margt í þessari löngu bókun kemur málinu ekki við. Sagt er, að slitið hafi verið samstarfi við rússneska háskóla, og eðlilegt sé að slíta einnig samstarfi við háskóla í Ísrael. En Háskólinn hefur ekkert samstarf við háskóla í Ísrael, svo að engu er að slíta. Þótt fyrirhugaður fyrirlesari sé prófessor í Ísrael og raunar kunnur og virtur fræðimaður, var hann hér á eigin vegum og þáði boð Gylfa Zoëga um að halda fyrirlestur á sérsviði sínu. Í samþykkt Háskólaráðs frá 10. mars 2022 sagði einmitt: „Almennt skulu aðgerðir ekki beinast að einstaklingum, og viðurkennt er að samstarf í menntun og rannsóknum er oft byggt á persónulegum tengslum.“

Skýlaust lögbrot

Í bókun Ragnýjar Þóru eru alvarlegar missagnir og jafnvel falsanir. Í fyrsta lagi er vitnað í þau orð Gylfa Zoëga í bréfi hans til Háskólaráðs, að það þurfi að leggja línur, „svo að yfirvöld skólans leggi ekki blessun sína yfir lögbrot með þögn sinni“. Segir Ragný Þóra: „Ekki hefur verið skorið úr um að lög hafi verið brotin í tengslum við viðburð PRICE sem vitnað er til. Af þeim ástæðum liggur fyrir að háskólaráð getur ekki tekið málið til umfjöllunar á þeim forsendum.“

Þetta er alrangt. Um var að ræða skýlaust lögbrot. Ekki er um það deilt, að nokkrir starfsmenn Háskólans ruddust inn á fundinn og höfðu í frammi slíka háreysti, að ekki var fundarfært. Í 122. grein almennra hegningarlaga segir:

  1. Hver, sem hindrar það, að löglegur mannfundur sé haldinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft.
  2. Raski nokkur fundarfriði á lögboðnum samkomum um opinber málefni með háreysti eða uppivöðslu, þá varðar það sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Um var að ræða löglegan mannfund, og þeir starfsmenn Háskólans, sem ruddust inn á hann og komu í veg fyrir, að fundarstjóri og fyrirlesari gætu talað, voru að hindra hann. Þeir röskuðu ekki aðeins fundarfriði, sem vægari refsing er lögð við skv. 2. málsgrein 122. gr. laganna, heldur hindruðu það beinlínis, að löglegur mannfundur yrði haldinn. Og jafnvel þótt reynt væri að fella framferði þeirra undir 2. málsgrein 122. gr. laganna, frekar en 1. málsgrein, er það lögbrot og varðar sektum eða fangelsi allt að þremur mánuðum.

Frekleg fölsun 

Í öðru lagi er í bókun Ragnýjar Þóru hvergi minnst einu orði á tilefnið til átakanna á Gasa. Það er frekleg fölsun og ekkert annað. Tilefnið var, að hryðjuverkasamtökin Hamas, sem höfðu öll yfirráð á Gasa, eftir að þau sigruðu í kosningum árið 2006 (en hafa ekki haldið kosningar síðan), réðust á Ísrael 7. október 2023 á svo fólskulegan og villimannslegan hátt, að þess er varla hliðstæða á okkar dögum. Myrtu Hamas-liðar um 1.200 manns, nauðguðu konum og svívirtu þær á annan hátt, drápu börn fyrir framan foreldra sína og tóku 251 gísl, sem þeir höfðu með sér inn í jarðgöng, sem þeir hafa grafið undir öllu Gasa fyrir fjárhagsaðstoð frá Vesturlöndum og Arabaríkjum. Tóku þeir sjálfir kvikmyndir af ódæðum sínum og birtu á netinu. Síðan hafa þeir öðru hvoru sent eldflaugar inn í Ísrael, sem ætlað er að granda óbreyttum borgurum. Þess vegna er eðlismunur á framferði Rússa í Úkraínu og aðgerðum Ísraelshers á Gasa. Rússar réðust á Úkraínu, en Gasa-búar (eða Hamas-liðar í umboði þeirra) réðust á Ísrael. Ísrael er í sömu stöðu og Úkraína: á það var ráðist. Auðvitað hafði Ísrael fullan rétt á að verja sig alveg eins og Úkraína hefur fullan rétt á að verja sig. Á sama hátt og hætt er við, að ýmsir óbreyttir borgarar í Rússlandi falli því miður eða særist í gagnárásum Úkraínuhers, er hætt við, að ýmsir óbreyttir borgarar á Gasa falli því miður eða særist í gagnárásum Ísraelshers. Það gerist í öllum stríðum.

Misnotkun hugtaksins þjóðarmorð

Ragný Þóra heldur því enn fremur fram í bókun sinni, að Ísraelsmenn fremji þjóðarmorð á Gasa, þótt erfitt sé að sjá, hvernig það á að réttlæta innrásina í Þjóðminjasafnið 6. ágúst 2025. Hér misnotar hún hugtakið (eins og fleiri gera, sem hún vitnar til, en í svokölluðu mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna sitja 47 fulltrúar og margir þeirra frá einræðisríkjum, sem fremja kerfisbundin mannréttindabrot). En hugtakið þjóðarmorð hefur skýra merkingu. Það mótaðist í lok seinni heimsstyrjaldar til að lýsa framferði þýskra nasista, sem reyndu að útrýma gyðingum, en raunar líka vangefnu fólki, sígaunum og samkynhneigðum körlum. Jafnframt stunduðu nasistar stórfelldar ófrjósemisaðgerðir. Í framhaldi af réttarhöldum yfir forystumönnum nasista í Nürnberg 1946, sem sakfelldir voru fyrir „glæpi gegn mannkyni“, samþykkti sérstök ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málið 9. desember 1948: „Með þjóðarmorði er átt við eitthvert eftirtalinna verka, sem framin eru í því skyni að tortíma í heild eða að hluta hópi, sem markast af þjóðerni, uppruna, kynþætti eða trú: a) að drepa fólk í hópnum, b) að valda fólki í hópnum alvarlegum áverkum, líkamlegum eða andlegum, c) að haga svo til, að aðstæður hópsins valdi tortímingu hans að hluta eða í heild, d) að gera ráðstafanir til þess, að hópurinn geti ekki fjölgað sér, e) að flytja með valdi börn úr hópnum í aðra hópa.“

Ef miðað er við þessa skilgreiningu, þá var helförin í seinni heimsstyrjöld tvímælalaust þjóðarmorð. Deilt er um, hvort Tyrkir hafi framið þjóðarmorð á Armenum árið 1915, en Tyrkjaher gekk þá fram af mikilli grimmd, hvort sem markmið hans var beinlínis að útrýma Armenum eða berja harkalega niður uppreisn þeirra. Mér sýnist, að undir þessa skilgreiningu á þjóðarmorði falli framferði Rússa í Úkraínu, en þeir hafa sem kunnugt er flutt með valdi fjölda barna til Rússlands. Einnig falli framferði Kínastjórnar undir þessa skilgreiningu á þjóðarmorði: Í Tíbet hefur fjöldi Tíbeta fallið í uppreisnum, og markvisst er reynt að útrýma siðum þeirra og venjum (valda þeim andlegum áverkum). Í vesturhluta Kína, Xinjiang, sæta Uyghur-múslimar ofsóknum sökum trúar sinnar, og er talið, að um ein milljón þeirra sé geymd í þrælabúðum, þar sem reynt er að fá fanga til að kasta trú sinni, þeir pyndaðir, konum nauðgað og framkvæmdar ófrjósemisaðgerðir. Enn fremur er talið, að að árin 2000 til 2008 hafi 65 þúsund fangar úr Falun Gong samtökunum verið teknir af lífi í Kína og líffærin úr þeim seld (nánast sami fjöldi og Ragný Þóra telur hafa fallið á Gasa, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar). Í því sambandi er umhugsunarefni, að Háskóli Íslands er í sérstöku samstarfi við kínversk stjórnvöld, sem reka svokallaðar Konfúsíusarstofnanir í mörgum löndum, þar á meðal á Íslandi, og eru þær mjög umdeildar, því að þær þykja ganga erinda kínverskra stjórnvalda eða að minnsta kosti halda uppi hinu algera banni þeirra við að ræða hugsanlegt þjóðarmorð í Tíbet og í vesturhluta Kína, blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar árið 1989, sjálfsákvörðunarrétt íbúa Taívans og brot Kínverja á samningum við Breta um Hong Kong. Ragný Þóra sagði í bókun sinni: „Það er von undirritaðrar sem fulltrúa í háskólaráði og sem starfsmanns Háskóla Íslands að í allri starfsemi skólans séu sjónarmið um mannúð og mannréttindi höfð í heiðri ofar öðrum sjónarmiðum.“ Á þetta ekki við um Kína?

Aðgerðir Ísraelshers á Gasa falla hins vegar ekki undir skilgreininguna á þjóðarmorði. Það er ekki markmið Ísraelsmanna að útrýma Palestínu-Aröbum, enda hefur fjöldi þeirra tífaldast, frá því að Ísraelsríki var stofnað vorið 1948, og eru þeir nú 5,5 milljónir talsins, 3,4 milljónir á vesturbakkanum og 2,1 milljón á Gasa. Það voru Jórdanir, sem hernámu Vesturbakkann árið 1948, og Egyptar, sem hernámu Gasa sama ár, en Ísraelsmenn hernámu bæði svæðin í sex daga stríðinu 1967, en hurfu á brott frá Gasa árið 2005. Ísraelsher varar jafnan óbreytta borgara við, þegar hann gerir loftárásir. Hann reynir einnig að beina árásum að hernaðarlegum skotmörkum. Markmið hans var og er að útrýma Hamas-samtökunum, ekki Palestínu-Aröbum. Það voru síðan Hamas-liðar, sem komu í veg fyrir, að matvæli og hjálpargögn bærust á Gasa. Ragný Þóra nefnir í bókun sinni, að 63 þúsund manns hafi fallið á Gasa í stríðinu, sem hófst 7. október 2023. Erfitt er að meta, hversu áreiðanleg sú tala er, en því er líka haldið fram, að um 80% fallinna hafi verið óbreyttir borgarar. Það er nokkru hærra hlutfall en í seinni heimsstyrjöld, þar sem talið er, að 60–67% fallinna hafi verið óbreyttir borgarar, en það skýrist auðvitað af framferði Hamas-liða. Þeir ganga ekki í einkennisbúningum eins og venjulegir hermenn, svo að erfitt er að gera greinarmun á þeim og óbreyttum borgurum, og þeir fela sig inni í skólum og sjúkrahúsum og nota þannig óbreytta borgara sem skildi. En séu þessar tvær tölur teknar trúanlegar, þótt líklega séu þær í hærra lagi, þá hafa um 50.400 óbreyttir borgarar fallið í þessu stríði, um 2,4% íbúanna á Gasa. Það er auðvitað sorglegt, mjög sorglegt, en það er ekki þjóðarmorð. Hamas-liðar beina hernaðaraðgerðum sínum hins vegar að óbreyttum borgurum í Ísrael, og samtökin hafa beinlínis á stefnuskrá sinni að útrýma Ísraelsríki, eins og raunar forystumaður innrásarinnar í Þjóðminjasafnið, Ingólfur Gíslason, aðjúnkt á menntavísindasviði, sem skrifaði færslu á Facebook eftir innrásina: „Fari Ísraelsríki til helvítis.“ Ekki verður betur séð en þessi forystumaður innrásarinnar og starfsmaður Háskólans hafi hér verið að hvetja til þjóðarmorðs.

Flokkar: Óflokkað

«

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir