Ég hef víða flutt erindi árið 2025, og eru stuttar frásagnir um þau á heimasíðu RNH og oft myndir.
Á þingi Mont Pelerin samtakanna í Mexíkóborg 16.–19. mars kynnti ég bók mína um frjálslynda íhaldsstefnu, Conservative Liberalism, North and South, og lagði þá megináherslu á þá Snorra Surluson, Anders Chydenius og N.F.S. Grundtvig. Reifaði ég líka utanríkisstefnu í anda Grundtvigs, norrænu leiðina.
Á fundi Samtaka eldri sjálfstæðismanna í Reykjavík 26. mars kynnti ég bók mína um frjálslynda íhaldsstefnu, Conservative Liberalism, North and South, og ræddi líka um íslensk stjórnmál. Ég kvað utanríkisstefnuna eiga að felast í að selja fisk, en ekki frelsa heiminn.
Á ráðstefnu í Vínarborg 12. maí gerði ég greinarmun á mörgum litlum draumum og einum stórum draumi. Margir litlu draumarnir væru venjulegs fólks, sem vildi koma upp fjölskyldu og reka fyrirtæki. Þeir draumar gætu ræst við atvinnufrelsi. Stóri draumurinn væri menntamannanna, sem vildu umskapa heiminn eftir forskriftum úr bókum, en það endaði alltaf með ósköpum, breyttist í martröð.
Á ráðstefnu í Búdapest 13. maí kvað ég alþjóðaviðskipti vera í senn leið til hagsældar og friðsældar. Hagsældin sprytti af verkaskiptingunni, en friðsældin af því að sjá frekar viðskiptavini en óvini í öðrum þjóðum.
Í sumarskóla New Direction í Chateau de Thorens í Suður-Frakklandi 30. júní til 4. júlí sagði ég frá rannsóknum mínum á norrænni frjálshyggju, meðal annars Snorra Sturlusyni, og lögmálum hennar, ekkert vald án samþykkis og mótstöðuréttinn.
Í Vínarborg 2. október kvað ég vinstrið og hægrið vera að ummyndast. Vinstrið hefði tapað valdabaráttunni í stjórnmálum, en náð yfirráðum yfir háskólum, fjölmiðlum og ýmsum stofnunum. Hægrið hefði klofnað, því að fjórfrelsið mætti ekki verða frelsi glæpalýðs, öfgamúslmia og betlibótara til að áreita okkur.
Rita ummæli