Laugardagur 03.01.2026 - 15:26 - Rita ummæli

Hægrið og vinstrið

Svo virðist sem hægrið og vinstrið séu hvort tveggja að umhverfast.
Hægrið studdi áður fyrr fjórfrelsið, sem Evrópusambandið var stofnað utan um, óhindrað flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks yfir landamæri. En nú eru hefðbundnir hægri flokkar í Evrópu að láta undan síga fyrir flokkum, sem vilja takmarka innflutning fólks, aðallega frá múslimaríkjum, en fólk þaðan virðist eiga erfitt með að laga sig að vestrænum siðum. Líklega er kominn tími til þess fyrir hægrið að styðja áfram opin landamæri fyrir duglegt og löghlýðið fólk, en loka þeim fyrir þremur hópum, glæpalýð, öfgamúslimum og bótabetlurum. Jafnframt ætti hægrið að taka upp þjóðernisstefnu án þess þó að kasta alþjóðahyggjunni. Það ætti að efla þjóðríkin og leggja meiri áherslu á þjóðmenningu en fjölmenningu.
Vinstrið tapaði baráttunni um ríkisvaldið af þeirri einföldu ástæðu, að sósíalismi þess mistókst, jafnvel hinn tiltölulega hófsami sænski sósíalismi. Vinstrinu hefur hins vegar tekist að grípa dagskrárvaldið. Það ræður háskólum, fjölmiðlum og ýmsum stofnunum, jafnvel dómstólum. Auðvelt er að skýra þann sigur þess. Ötulir hægri menn stofna fyrirtæki og skapa verðmæti. Ötulir vinstri menn verða blaðamenn, kennarar og atvinnumótmælendur. En með vælumenningu sinni (wokeism) og afturköllunarfári (cancel culture) kann vinstrið að ganga svo fram af venjulegu fólki, að það missi eitthvað af dagskrárvaldi sínu. Nú er draumríki þess ekki Rússland, Kúba eða Svíþjóð, heldur land, sem er ekki til, Palestína, og skrattinn á veggnum ekki lengur ríka fólkið, heldur gyðingar, eins og í Þýskalandi upp úr 1930.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og fjórum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir