Laugardagur 03.01.2026 - 15:34 - Rita ummæli

Háskólanum til skammar

Það var Háskólanum til skammar, að rektor hans og Háskólaráð skyldu ekki fordæma það, þegar nokkrir kennarar og nemendur hans ruddust 6. ágúst inn á málstofu í Háskólanum um lífeyrismál og gervigreind. Gerði hópurinn hróp að fyrirlesaranum, prófessor Gil Epstein, og fundarstjóranum, prófessor Gylfa Zoëga, svo að ekki heyrðist mannsins mál. Eftir að á þessu hafði gengið í tuttugu mínútur, var þess ekki annar kostur en slíta fundinum. Einn óspektarmanna, Ingólfur Gíslason aðjúnkt, skrifaði færslu á Facebook sama dag: „Fyrirlestur fulltrúa þjóðamorðræðisins [svo] í Ísrael var blásinn af eftir um 20 mínútur. Þá hafði því verið komið því [svo] skýrt á framfæri að fyrirlestri prófessorsins væri hafnað.“
Þetta var árás á akademískt frelsi, en líka skýlaust lögbrot, því að í 122. gr. hegningarlaga segir: „Hver, sem hindrar það, að löglegur mannfundur sé haldinn, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári, eða fangelsi allt að 2 árum, ef miklar sakir eru, einkum ef ofríki eða ógnun í framferði hefur verið viðhaft.“ Haskólaráð samþykkti aðeins ályktun almenns eðlis til stuðnings rétti til að mótmæla og rétti til að halda fundi óáreittur, en sagði ekkert um framferði árásarmanna. Kvað Háskólaráð þeim, sem teldu lög brotin, bera að benda lögreglunni í Reykjavík á það. Strax eftir að samþykkt þess hafði verið birt, gerði ég það bréflega til lögreglustjóra.
Setjum svo, að Noam Chomsky hefði átt að halda fyrirlestur í Háskóla Íslands, en hópur kennara og nemenda ruðst inn á fundinn og komið í veg fyrir, að Chomsky talaði. Þá hefði áreiðanlega ekki staðið á viðbrögðum Háskólans. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá, að máli hafi skipt, að Gil Epstein var gyðingur frá Ísrael, enda skrifaði forsprakki árásarinnar, Ingólfur Gíslason, aðra færslu sama dag: „Ísrael fari til helvítis!“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. nóvember 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og tveimur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir