Mér var fyrir skömmu bent á lokaritgerð í sagnfræði, sem Þorgrímur Kári Snævarr samdi í Háskóla Íslands haustið 2021 undir umsjón prófessors Vals Ingimundarsonar, Afneitunareyjan: Þróun íslenskrar loftslagsumræðu frá níunda áratugnum til okkar daga. Þar erum við Davíð Oddsson og Egill Helgason sagðir „afneitunarsinnar“ um loftslagsbreytingar. Því fer þó fjarri, að ég afneiti loftslagsbreytingum. Ég hef aðeins bent á tvennt: Loftslagsbreytingar hafa alla tíð átt sér stað af náttúrunnar völdum og löngu áður en menn fóru ef til vill að hafa einhver áhrif á loftslag með losun koltvísýrings í andrúmsloftið. Sá tími er ekki skyndilega runninn upp, að náttúruöflin séu hætt að hafa áhrif á loftslag. Í öðru lagi er alls óvíst, að það loftslag, sem var á jörðu um og eftir 1990, sé hið eina æskilega, svo að allar breytingar séu til hins verra. Verið getur, að hækkun meðalhita um eitt eða tvö stig stig sé til góðs, sérstaklega á Norðurslóðum.
Í ritgerðinni er ekki minnst á hneykslið, þegar helstu talsmenn hamfarahlýnunar af mannavöldum urðu uppvísir að því árið 2009 að leggja í tölvuskeytum á ráðin um talnabrellur (Climategate), og því síður á allar hrakspárnar, sem ekki hafa ræst. En úr því að höfundur takmarkaði sig, eins og skynsamlegt var, við umræður á Íslandi á ákveðnu tímabili, eru tvær meinlegar gloppur í verki hans. Önnur er, að hvergi er minnst á fyrirlestur, sem hinn heimskunni vísindabókahöfundur dr. Matt Ridley flutti í Háskólanum 27. júlí árið 2012, þar sem hann afneitaði ekki hlýnun jarðar, en taldi of mikið gert úr henni og neikvæðum afleiðingum hennar. Hefur bók Ridleys, Heimur batnandi fer (The Rational Optimist), komið út á íslensku. Ridley átti í ritdeilu við auðjöfurinn og menningarfrömuðinn Bill Gates um loftslagsmál, en nú hefur Gates skipt um skoðun og tekur undir margt með Ridley. Hin gloppan er, að hvergi er minnst á ráðstefnu, sem haldin var í Háskólanum 8. október árið 2015 til heiðurs prófessor Rögnvaldi Hannessyni, sem hafði einmitt skömmu áður gefið út bókina Ecofundamentalism (Umhverfisöfga), þar sem hann gagnrýndi hamfarahlýnunartrúna. Rögnvaldur er einn virtasti vísindamaður okkar á alþjóðavettvangi. Hefði umsjónarkennari hins unga manns átt að vekja athygli hans á þessu tvennu. Háskólinn á ekki að vera bergmálshellir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. nóvember 2025.)

Rita ummæli