Laugardagur 03.01.2026 - 15:43 - Rita ummæli

Hitamál

Í loftslagsmálum segir heilbrigð skynsemi mér tvennt: 1) að náttúran hafi ekki skyndilega hætt upp úr 1980 að hafa áhrif á loftslag og 2) að það loftslag, sem mældist um og eftir 1980, geti ekki verið hið eina ákjósanlega, svo að allar loftslagsbreytingar eftir það séu til hins verra. Nú hefur Frosti Sigurjónsson, hagfræðingur, frumkvöðull og fyrrverandi alþingismaður, samið fróðlegt kver, Hitamál, þar sem hann rekur skilmerkilega rannsóknir á áhrifaþáttum loftslags, sem eru vitaskuld margir fleiri en koltvísýringur í andrúmslofti. Sumir þættir valda hlýnun, aðrir kólnun. Frosti dregur ekki í efa þá vísindalegu tilgátu, að losun koltvísýrings í andrúmsloft valdi hlýnun. Hann heldur því hins vegar fram, að margir aðrir þættir séu að verki og í báðar áttir, til hlýnunar og kólnunar. Hann bendir líka á, að aukning koltvísýrings í andrúmslofti örvi gróður, sem sé jákvætt. Veruleg óvissa sé um hlutföll einstakra áhrifaþátta og um kosti og galla áhrifanna.
Á fyrstu áratugum þessarar aldar hefur hafist barátta fyrir því um allan heim að minnka losun koltvísýrings í andrúmsloft, ekki síst með því að takmarka brennslu kola og olíu. En slík orkuskipti höfðu þegar farið fram á Íslandi, því að mestöll orka, sem hér er nýtt, er endurnýjanleg og hefur ekki í för með sér losun koltvísýrings í andrúmsloft. Frosti gagnrýnir, að misvitrir stjórnmálamenn hafi skuldbundið Ísland til svipaðra orkuskipta og í löndum, sem nýta aðallega orkugjafa eins og kol og olíu. Hinar nýju reglur leggjast þess vegna af meiri þunga hér en annars staðar á flug, siglingar og vegasamgöngur. Þetta var ein ástæðan til þess, að flugfélagið Play varð gjaldþrota haustið 2025, og þetta hefur líka valdið Icelandair búsifjum. Frosti telur þetta jafnóskynsamlegt og að skipa tveimur mönnum, öðrum akfeitum og hinum nálægt kjörþyngd, að grennast jafnmikið. Það, sem er skynsamlegt í dæmi annars, er varhugavert í dæmi hins.
Ég er sammála Frosta um, að íslensk stjórnvöld hafa ekki nógsamlega vakið athygli á og fengið aðra til að viðurkenna sérstöðu Íslands í orku- og umhverfismálum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. desember 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir