Norski listmálarinn Christian Krogh myndskreytti norska útgáfu Heimskringlu árið 1899, og hefur teikning hans af Snorra sem gildvöxnum, þunnhærðum og skeggjuðum gengið aftur í mörgum bókum. En Krogh var að hæðast að lesendum. Mynd hans af Snorra var sjálfsmynd. Snorri hans var gerður nauðalíkur Krogh sjálfum.
Helgi Þorláksson prófessor hefur hins vegar velt fyrir sér, hvernig Snorri hefði verið í sjón. Telur hann líklegt, að Snorri hafi verið smávaxinn, skegglaus og léttur á sér. Rökin eru, að hann hafi haft velþóknun á smávöxnum söguhetjum, höfðingjar hafi verið skegglausir á þrettándu öld, og Snorri hafi ekki átt í erfiðleikum með að hlaupa niður í kjallara, þegar honum var veitt aðför 23. september 1241.
Á málstofu um Snorra í Háskóla Íslands 23. september 2025 benti ég hins vegar á tvennt. Sturla Sighvatsson var samkvæmt lýsingum vörpulegur á velli og fríður sýnum. Snorri var föðurbróðir hans og eðlilegt að líta svo á, að Sturlu hafi verið vel í ætt skotið. Árið 1224 hófu þau Snorri og Hallveig Ormsdóttir, sem þá var ríkasta kona á landinu, sambúð. Þá var Snorri 45 ára, en hún tuttugu árum yngri. Hallveig gat áreiðanlega valið úr mönnum. Hún valdi Snorra, og bendir það til þess, að hann hafi eins og bróðursonur hans verið vörpulegur á velli, fríður sýnum, í meðallagi hár og samsvarað sér vel.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. október 2025.)

Rita ummæli