Laugardagur 03.01.2026 - 15:25 - Rita ummæli

Hvernig var Snorri í sjón?

Norski listmálarinn Christian Krogh myndskreytti norska útgáfu Heimskringlu árið 1899, og hefur teikning hans af Snorra sem gildvöxnum, þunnhærðum og skeggjuðum gengið aftur í mörgum bókum. En Krogh var að hæðast að lesendum. Mynd hans af Snorra var sjálfsmynd. Snorri hans var gerður nauðalíkur Krogh sjálfum.
Helgi Þorláksson prófessor hefur hins vegar velt fyrir sér, hvernig Snorri hefði verið í sjón. Telur hann líklegt, að Snorri hafi verið smávaxinn, skegglaus og léttur á sér. Rökin eru, að hann hafi haft velþóknun á smávöxnum söguhetjum, höfðingjar hafi verið skegglausir á þrettándu öld, og Snorri hafi ekki átt í erfiðleikum með að hlaupa niður í kjallara, þegar honum var veitt aðför 23. september 1241.
Á málstofu um Snorra í Háskóla Íslands 23. september 2025 benti ég hins vegar á tvennt. Sturla Sighvatsson var samkvæmt lýsingum vörpulegur á velli og fríður sýnum. Snorri var föðurbróðir hans og eðlilegt að líta svo á, að Sturlu hafi verið vel í ætt skotið. Árið 1224 hófu þau Snorri og Hallveig Ormsdóttir, sem þá var ríkasta kona á landinu, sambúð. Þá var Snorri 45 ára, en hún tuttugu árum yngri. Hallveig gat áreiðanlega valið úr mönnum. Hún valdi Snorra, og bendir það til þess, að hann hafi eins og bróðursonur hans verið vörpulegur á velli, fríður sýnum, í meðallagi hár og samsvarað sér vel.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. október 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og átta? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir