Á ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna í Marrakesh í Marokkó, sem ég sat á dögunum, var rætt um íslam og einstaklingsfrelsi, og kom þar margt fróðlegt fram. Múslimar áttu sinn blómatíma á síðmiðöldum og stóðu þá framar Evrópuþjóðunum um menningu. Spekingarnir Avicenna (Ibn Sina), Averroes (Ibn Rushd) og Ibn Khaldun báru hróður íslams víða. Síðan snerist þetta við, sérstaklega í Arabaheiminum, þar sem ófrelsi og fátækt eru nú á tímum regla frekar en undantekning. Hvað olli? Ein skýringin er, að í Evrópu klofnaði valdið í langri, sögulegri þróun í andlegt og veraldlegt vald, svo að svigrúm myndaðist fyrir frumkvæði og sköpun einstaklinga, en í íslam hefur hvort tveggja þetta vald venjulega verið á einni hendi.
En er eitthvað í sjálfu íslam, sem kemur í veg fyrir framfarir? Á ráðstefnunni í Marrakesh var bent á, að í trúarritum múslima sé hvort tveggja að finna, frjálslyndi og stjórnlyndi. Þó virðist stjórnlyndið vera öllu sterkara. Til dæmis boðar Múhameð spámaður undirgefni enn afdráttarlausar en Páll postuli: „Þótt maður felli sig ekki við það, sem valdhafinn gerir, verður hann að sætta sig við það, því að hver sá, sem hlýðir ekki valdhafanum, jafnvel um smáatriði, mun deyja trúleysingi.“ (Sahih al-Bukhari, Bók 92, 7053.) Þá er ekki virt sú regla, að þeir, sem skapi verðmætin, skuli njóta þeirra. „Auður stofnar rétt betlarans og umkomuleysingjans.“ (Surah Adh-Dhariyat [51. bók Kóransins], 19.) Síðan segir berum orðum: „Ef maður kastar trú sinni [íslam], þá skal drepa hann.“ (Sahih al-Bukhari, Bók 88, 6922.) Liggur raunar dauðarefsing í tíu múslimalöndum, þar á meðal Afganistan, Íran og Pakistan, við því að kasta trú á íslam.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2025.)

Rita ummæli