Laugardagur 03.01.2026 - 15:29 - Rita ummæli

Íslam og einstaklingsfrelsi

Á ráðstefnu Mont Pelerin samtakanna í Marrakesh í Marokkó, sem ég sat á dögunum, var rætt um íslam og einstaklingsfrelsi, og kom þar margt fróðlegt fram. Múslimar áttu sinn blómatíma á síðmiðöldum og stóðu þá framar Evrópuþjóðunum um menningu. Spekingarnir Avicenna (Ibn Sina), Averroes (Ibn Rushd) og Ibn Khaldun báru hróður íslams víða. Síðan snerist þetta við, sérstaklega í Arabaheiminum, þar sem ófrelsi og fátækt eru nú á tímum regla frekar en undantekning. Hvað olli? Ein skýringin er, að í Evrópu klofnaði valdið í langri, sögulegri þróun í andlegt og veraldlegt vald, svo að svigrúm myndaðist fyrir frumkvæði og sköpun einstaklinga, en í íslam hefur hvort tveggja þetta vald venjulega verið á einni hendi.
En er eitthvað í sjálfu íslam, sem kemur í veg fyrir framfarir? Á ráðstefnunni í Marrakesh var bent á, að í trúarritum múslima sé hvort tveggja að finna, frjálslyndi og stjórnlyndi. Þó virðist stjórnlyndið vera öllu sterkara. Til dæmis boðar Múhameð spámaður undirgefni enn afdráttarlausar en Páll postuli: „Þótt maður felli sig ekki við það, sem valdhafinn gerir, verður hann að sætta sig við það, því að hver sá, sem hlýðir ekki valdhafanum, jafnvel um smáatriði, mun deyja trúleysingi.“ (Sahih al-Bukhari, Bók 92, 7053.) Þá er ekki virt sú regla, að þeir, sem skapi verðmætin, skuli njóta þeirra. „Auður stofnar rétt betlarans og umkomuleysingjans.“ (Surah Adh-Dhariyat [51. bók Kóransins], 19.) Síðan segir berum orðum: „Ef maður kastar trú sinni [íslam], þá skal drepa hann.“ (Sahih al-Bukhari, Bók 88, 6922.) Liggur raunar dauðarefsing í tíu múslimalöndum, þar á meðal Afganistan, Íran og Pakistan, við því að kasta trú á íslam.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir