Laugardagur 03.01.2026 - 15:38 - Rita ummæli

Kvöld í Róm

Margrétar Thatchers verðlaunin voru afhent í Róm 11. desember 2025, og var mér af því tilefni boðið í kvöldverð með verðlaunahöfum, þar á meðal Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Mér varð hugsað til þriggja íslenskra Rómarfara. Hinn fyrsti var Guðríður Þorbjarnardóttir, sem fór í pílagrímsferð til borgarinnar, líklega í lok þriðja áratugar elleftu aldar, er Jóhannes XIX. var páfi (1024–1032). Hún var þá ein víðförlasta kona heims, hafði dvalist í Vesturheimi, Grænlandi og Noregi og síðan gengið suður. Eðlilegast er að hugsa sér, að sögurnar tvær um fund Vesturheims, Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða, hafi varðveist í munnmælum og loks verið skráðar undir handarjaðri afkomenda hennar, sem urðu biskupar á Hólum og í Skálholti, en lítil tengsl virðast vera milli sagnanna tveggja.
Liðu nú aldir. Einar Benediktsson, fésýslumaður og skáld, kom til Rómar árið 1903 og orti þá nokkur kvæði um borgina, þar á meðal „Kvöld í Róm“, og segir þar:

Hugann grunar, hjartað finnur lögin.
Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.

Frændi Einars, Jón Þorláksson verkfræðingur og forsætisráðherra, kom til Rómar tuttugu árum síðar í síðbúna brúðkaupsferð með konu sinni, Ingibjörgu Claessen. Jón var eflaust ekki sammála Einari um styrkleikamun heilans og hjartans, enda hafði hann allra lifandi manna mest vit á dauðum hlutum, eins og Árni Pálsson prófessor sagði. Þó viknaði Jón, þegar hann virti einn daginn fyrir sér rústir Fori Romani, Rómarvalla, eins og hann sagði ítalska flugmarskálkinum Ítalo Balbó, þegar þeir sátu saman í kvöldverði í Ráðherrabústaðnum 6. júlí 1933 og töluðu saman latínu. Jóni fannst sárt að horfa upp á, hversu illa farin hin fornu mannvirki voru. Sic transit gloria mundi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2025.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og einum? Svar:

Höfundur

Hannes Hólmsteinn Gissurarson er prófessor emeritus í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands og hefur verið gistifræðimaður við fjölmarga erlenda háskóla, þar á meðal Stanford-háskóla og UCLA. Hann fæddist 1953, lauk doktorsprófi í stjórnmálafræði frá Oxford-háskóla 1985 og er höfundur fjölmargra bóka um stjórnmál, sögu og heimspeki á íslensku, ensku og sænsku.


Nýjustu bækur hans eru Twenty Four Conservative-Liberal Thinkers, sem hugveitan New Direction í Brüssel gaf út í tveimur bindum í árslok 2020, Bankahrunið 2008 og Communism in Iceland, sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gaf út árið 2021, og Landsdómsmálið, sem Almenna bókafélagið gaf út í desember 2022. Hann hefur gefið út átta bókarlangar skýrslur á ensku. Sjö eru fyrir hugveituna New Direction í Brüssel: The Nordic Models og In Defence of Small States (2016); Lessons for Europe from the 2008 Icelandic Bank Collapse, Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Property Rights og Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Communist Literature (2017); Why Conservatives Should Support the Free Market og Spending Other People’s Money: A Critique of Rawls, Piketty and Other Redistributionists (2018). Ein skýrslan er fyrir fjármálaráðuneytið, Foreign Factors in the 2008 Bank Collapse (2018). Hann er ritstjóri Safns til sögu kommúnismans, ritraðar Almenna bókafélagsins um alræðisstefnu, en nýjasta bókin í þeirri ritröð er Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 1950–1958. Árin 2017 og 2018 birtust eftir hann þrjár ritgerðir á ensku um frjálshyggju á Íslandi, Liberalism in Iceland in the Nineteenth and Twentieth Centuries, Anti-Liberal Narratives about Iceland 1991–2017 og Icelandic Liberalism and Its Critics: A Rejoinder to Stefan Olafsson.  

RSS straumur: RSS straumur

Nýlegar athugasemdir