Margrétar Thatchers verðlaunin voru afhent í Róm 11. desember 2025, og var mér af því tilefni boðið í kvöldverð með verðlaunahöfum, þar á meðal Giorgiu Meloni, forsætisráðherra Ítalíu. Mér varð hugsað til þriggja íslenskra Rómarfara. Hinn fyrsti var Guðríður Þorbjarnardóttir, sem fór í pílagrímsferð til borgarinnar, líklega í lok þriðja áratugar elleftu aldar, er Jóhannes XIX. var páfi (1024–1032). Hún var þá ein víðförlasta kona heims, hafði dvalist í Vesturheimi, Grænlandi og Noregi og síðan gengið suður. Eðlilegast er að hugsa sér, að sögurnar tvær um fund Vesturheims, Grænlendinga saga og Eiríks saga rauða, hafi varðveist í munnmælum og loks verið skráðar undir handarjaðri afkomenda hennar, sem urðu biskupar á Hólum og í Skálholti, en lítil tengsl virðast vera milli sagnanna tveggja.
Liðu nú aldir. Einar Benediktsson, fésýslumaður og skáld, kom til Rómar árið 1903 og orti þá nokkur kvæði um borgina, þar á meðal „Kvöld í Róm“, og segir þar:
Heilinn greinir skemmra en nemur taugin.
Frændi Einars, Jón Þorláksson verkfræðingur og forsætisráðherra, kom til Rómar tuttugu árum síðar í síðbúna brúðkaupsferð með konu sinni, Ingibjörgu Claessen. Jón var eflaust ekki sammála Einari um styrkleikamun heilans og hjartans, enda hafði hann allra lifandi manna mest vit á dauðum hlutum, eins og Árni Pálsson prófessor sagði. Þó viknaði Jón, þegar hann virti einn daginn fyrir sér rústir Fori Romani, Rómarvalla, eins og hann sagði ítalska flugmarskálkinum Ítalo Balbó, þegar þeir sátu saman í kvöldverði í Ráðherrabústaðnum 6. júlí 1933 og töluðu saman latínu. Jóni fannst sárt að horfa upp á, hversu illa farin hin fornu mannvirki voru. Sic transit gloria mundi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. desember 2025.)

Rita ummæli